Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:47:14 (1518)

1997-12-02 13:47:14# 122. lþ. 32.2 fundur 103#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðurlegi forseti. Á árum áður þegar kjarasamningar voru gerðir var gjarnan gripið til svokallaðra eingreiðslna til þess að kalla fram hækkun á lífeyri fyrir þá sem höfðu annaðhvort lág laun eða lifðu nær eingöngu á tryggingabótum. Þetta hefur auðvitað breyst eftir að taxtarnir breyttust. Það kom skýrt fram í máli mínu að viðmiðunin er ekki í atvinnuleysistryggingabótunum. Ég sagði það í upphafsræðu minni og það gat ekki farið fram hjá nokkrum manni. Það stendur heldur ekki til að reyna að reikna út hver breytingin hefur verið annaðhvort frá 1995 eða 1970 eða einhverju öðru ártali. Breytingin tekur gildi frá og með áramótum, frá þeim tíma tekur viðmiðunin gildi og miðað verður við að setja í fjárlög upphæð sem nemur þeirri viðmiðun. Svo að það sé nú alveg skýrt þá er ætlunin að almannatryggingabætur hækki á næsta ári með sama hætti og laun hækka í landinu.