Kostnaður við löggæslu

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:48:45 (1519)

1997-12-02 13:48:45# 122. lþ. 32.2 fundur 104#B kostnaður við löggæslu# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:48]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. Úti á landsbyggðinni er algengt að félagasamtök svo sem ungmennafélög, íþróttafélög eða kvenfélög, svo dæmi séu nefnd, efni til skemmtana til fjáröflunarstarfsemi félaganna. Þá greiða félagasamtökin skemmtanaleyfi eða sérstakan löggæslukostnað ef um dansleiki eða útihátíðir er að ræða, allt frá 5.000 kr. fyrir skemmtanaleyfi og 9.000 kr. fyrir hvern starfandi löggæslumann. ÍBV, íþróttafélag, greiðir 1.500--1.800 þús. kr. í löggæslukostnað á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Svipaða sögu er að segja um löggæslukostnað á landsmótum hestamanna og öðrum sumarhátíðum. Kostnaður þessi er mjög íþyngjandi fyrir félögin.

Í miðbæ höfuðborgarinnar eru 90 veitingastaðir sem rúma um 11.000 manns. Flestir þessara staða loka á sama tíma um helgar. Þá fyllist miðbærinn af fólki en löggæslukostnaðurinn lendir ekki á samkomuhöldurum heldur almenningi í landinu. Hér er því um ákveðið ósamræmi að ræða varðandi gjaldtöku. Hyggst dómsmrh. beita sér fyrir breytingum hvað þetta varðar og ef svo er á hvern hátt?