Framkvæmd laga um réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:53:29 (1522)

1997-12-02 13:53:29# 122. lþ. 32.2 fundur 105#B framkvæmd laga um réttindi sjúklinga# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Síðasta vor voru samþykkt á þinginu lög um réttindi sjúklinga. Í þeim lögum segir að markmið þeirra sé að ,,tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi ...`` Sjúklingur á ,,rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á``. Síðan er talað um í 17. gr. að heilbrigðisstarfsmaður skuli ,,gæta þess að framkvæma nauðsynlega meðferð með þeim hætti að utanaðkomandi aðilar sjái ekki til ...`` Og í 22. gr. er kveðið á um það að ,,áður en að útskrift sjúklings kemur skulu aðstæður hans kannaðar og honum tryggð fullnægjandi heimaþjónusta eða önnur úrræði eftir því sem unnt er``.

Ég get ekki séð annað en að verið sé að brjóta þessi lög á sjúklingum miðað við þá þjónustu sem boðið er upp á sérgreinasjúkrahúsunum í Reykjavík. Þar vil ég sérstaklega nefna bráðasjúklinga á sérgreinasjúkrahúsunum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem landlæknir gaf heilbr.- og trn. Alþingis í vikunni er ,,aðbúnaður bráðasjúklinga á sérgreinasjúkrahúsum í Reykjavík [er] óviðunandi. Fleiri athuganir hafa leitt í ljós að í lok vakta vistast sem svarar heilli legudeild á göngum, skotum og jafnvel baðherbergjum. Ítarleg rannsókn leiddi í ljós að fjórði hver sjúklingur vistast við slíkar aðstæður. Oft er hér um verulega veikt fólk að ræða sem liggur með vökva og blóðgjafir og þarfnast veigamikilla rannsókna og hjúkrunar. Á göngum er mikil umferð svo mikið veikir sjúklingar fá ekki ró né svefnfrið. Fer ekki milli mála að slíkt umhverfi er ekki bjóðandi veiku fólki. Miklar kvartanir berast frá heilbrigðisstarfsfólki vegna þess að margir sjúklingar eru útskrifaðir of fljótt.`` Síðan er sýnt fram á með línuriti hversu mjög endurinnlagnir hafa aukist (Forseti hringir.) á bráðasjúkrahúsunum. --- Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti.

(Forseti (ÓE): Tíminn er búinn.) Fólk fær ekki heimahlynningu þó það sé útskrifað og landlæknir kemst að þeirri niðurstöðu að verið sé að brjóta þessi lög á sjúklingum. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hvernig hyggst hann bregðast við svo lög verði ekki brotin á sjúklingum á þessum sjúkrahúsum?