Framkvæmd laga um réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:56:13 (1523)

1997-12-02 13:56:13# 122. lþ. 32.2 fundur 105#B framkvæmd laga um réttindi sjúklinga# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:56]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom hér inn á lög um réttindi sjúklinga sem voru samþykkt á Alþingi í fyrra. Þetta er mjög mikilvæg lagasetning og ég tel að þetta sé með mikilvægari lagasetningum sem hafa verið samþykktar og það er allt gert til að fullnægja þeim lagabókstaf.

Hv. þm. sagði að það kæmi fyrir að sjúklingar lægju úti á gangi og þess vegna hefðu þeir ekki þann frið sem nauðsynlegt er. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að oft eftir bráðavaktir eru sjúklingar úti á gangi en það er ekki nema til skamms tíma í einu, sem betur fer. Því að, eins og ég segi, allt er gert til þess að sjúklingurinn fái sitt pláss en það getur komið fyrir á bráðavöktum að allt að 20 sjúklingar leggist inn og það er ekki fyrirséð.

En hvað erum við að gera til að fullnægja lögum um réttindi sjúklinga? Það er ýmislegt sem við gerum. Með byggingu Barnaspítala Hringsins erum við að fullnægja þeim lögum sem við höfum samþykkt um það að foreldrar geti verið með börnum sínum á sjúkrahúsi. Með nýrri líknardeild erum við einnig að auka rými fyrir sjúklinga og bæta úr þeirri þörf sem fyrir er að sjúklingar geti haft meira næði og persónulegt umhverfi.