Framkvæmd laga um réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:00:20 (1526)

1997-12-02 14:00:20# 122. lþ. 32.2 fundur 105#B framkvæmd laga um réttindi sjúklinga# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:00]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta eru ekki svör við þeim spurningum sem ég spurði. Auðvitað hefur heimahjúkrun og heimahlynning aukist vegna þess að fólk er útskrifað af sjúkrahúsunum æ veikara. Það kemur fram í þessari skýrslu landlæknis. Það kemur líka fram að verið er að brjóta þessi lög daglega. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera í málinu? Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að vera útskrifað án þess að fá þá þjónustu sem kveðið er á um í lögum um réttindi sjúklinga. Það er ekki boðlegt og það er ekki boðlegt að við séum að setja hér lög sem síðan þykir sjálfsagt að brjóta nokkrum mánuðum eftir að við setjum þau. Ég kalla eftir því: Hvað á að gera í ástandinu á bráðavöktum sérgreinasjúkrahúsanna? Hvað hyggst ráðherrann gera í málinu þegar fjórði hver sjúklingur liggur á göngum og menn eru endurinnlagðir trekk í trekk og mikil aukning hefur verið á því að sjúklingar komi í endurinnlagnir eftir að hafa verið útskrifaðir? Það er auðvitað vegna þess að ekki er búið að lækna þá þegar þeir eru sendir út af sjúkrahúsunum. Ég kalla eftir svörum og því hvað ráðherra hyggst gera í þessum málum.