Sala á Pósti og síma hf.

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:02:18 (1528)

1997-12-02 14:02:18# 122. lþ. 32.2 fundur 106#B sala á Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. samgrh. Er það ásetningur hæstv. ráðherra að beita sér fyrir sölu á Pósti og síma hf. þvert á yfirlýsingar sem hann sjálfur gaf þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag, yfirlýsingar sem hann gaf bæði hér á Alþingi en einnig annars staðar á opinberum vettvangi? Hér segir hann t.d. í blaðaviðtali, með leyfi forseta:

,,Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.``

Þetta er orðrétt tilvitnun í ummæli hæstv. ráðherra og afdráttarlausara og skýrara getur afstaðan vart orðið.

Það er eitt að vera þeirrar skoðunar að selja eigi Póst og síma. Annað er að fara með blekkingar í þessu máli. Hvað er það sem raunverulega vakir fyrir hæstv. samgrh. og hver er afstaða ríkisstjórnarinnar? Hefur þetta verið rætt í ríkisstjórn og standa báðir ríkisstjórnarflokkarnir og allir ráðherrar einhuga að þessari ákvörðun?