Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:13:30 (1535)

1997-12-02 14:13:30# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:13]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem felur í sér breytingu á endurnýjunarreglum fiskiskipa. Frv. var samið á vegum starfshóps sem ég setti á fót í janúar sl. Starfshópnum var falið að gera tillögur um breytingar á endurnýjunarreglum fiskiskipa m.a. til samræmingar á þeim reglum sem gilda annars vegar um breytingar og hins vegar um nýsmíði. Þá var starfshópnum falið að leggja mat á kosti þess og galla að heimila almennt ákveðna stækkun skipa við endurnýjun án þess að sami rúmmetrafjöldi væri tekinn úr rekstri, þar á meðal hugsanleg áhrif á umgengni við nytjastofna sjávar og þróun fiskvinnslu.

Enn fremur átti starfshópurinn að huga að reglum um meðferð endurnýjunar heimilda, t.d. varðandi tímabundna geymslu og í sambandi við ýmis áhrif endurnýjunar á úthlutun aflaheimilda á grundvelli veiðireynslu. Í starfshópinn voru skipaðir Ari Edwald, aðstoðarmaður ráðherra, sem var formaður hópsins, útgerðarmennirnir Gunnar E. Hafsteinsson og Sigurður Einarsson og alþingismennirnir Einar Oddur Kristjánsson, Kristján Pálsson og Stefán Guðmundsson. Ritari starfshópsins var Auðunn Ágústsson.

[14:15]

Frv. sem hér er lagt fram er efnislega samhljóða þeim tillögum sem starfshópurinn skilaði sjútvrh. en gerðar hafa verið nokkrar breytingar varðandi uppsetningu og orðalag í þeim tilgangi að gera frv. skýrara. Í frv. eru lagðar til tvær meginbreytingar frá núgildandi reglum.

Í 2. mgr. frv. er lagt til að heimilt verði að endurnýja skip með þeim hætti að skip það sem veiðileyfið fær sé stærra í rúmmetrum talið en skip það sem veiðileyfið lætur. Heimildin er takmörkuð við skip sem hafa haft leyfi til að veiða með aflamarki í a.m.k. sjö ár. Þá er möguleg stækkun takmörkuð við 100 m3 að viðbættum 25% af rúmmetrafjölda þess skips er veiðileyfið lætur. Skip það er veiðileyfið fær má þó aldrei vera meira en 60% stærra en skip það sem veiðileyfið lætur. Rétt er að leggja áherslu á að ef skip stækkar meir en stækkunarreglan gerir ráð fyrir er ekkert því til fyrirstöðu að kaupa viðbótarrúmlestir með sama hætti og verið hefur og kemur þá rúmlest á móti rúmlest. Þá er enn fremur rétt að leggja á það áherslu að þótt stækkunarreglan eigi aðeins við þegar eitt skip kemur í stað eins eða fleiri skipa er ekkert því til fyrirstöðu að veiðileyfi þess skips sem viðbótarrúmlestir lætur sé skipt á fleiri en eina stækkun, en það veiðileyfi yrði þá ekki sjálft grundvöllur fyrir stækkun. Ávallt er horft til þess skips sem veiðileyfi er flutt frá þegar einstök tilvik eru metin og þess veiðileyfis sem þar er um að ræða. Fyrirmynd þessarar reglu er að miklu leyti að finna í reglugerð sem gilti fram til 1. sept. 1991 en er nú talið nauðsynlegt að stækkunarheimildin komi fram í lögunum sjálfum.

Í 3. mgr. frv. er lagt til að sú regla sem gildir um stækkun skipa sem stunda veiðar með aflamarki taki einnig til breytinga á slíkum skipum en sérreglur þar um verði felldar úr gildi. Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þeim útgerðum sem rétt hafa til stækkunar samkvæmt gildandi sérreglum og lagt er til að felldar verði úr gildi sé veittur ákveðinn aðlögunartími. Skilyrðin í bráðabirgðaákvæðinu eru hefðbundin og í samræmmi við það sem tíðkast hefur þegar reglum af þessu tagi hefur verið breytt.

Í 5. mgr. frv. er enn fremur lagt til að rúmmetrar sem ekki nýtast við flutning veiðileyfa á milli skipa eða vegna stækkana falli niður en slíkt ákvæði var áður að finna í reglugerð.

Varðandi áhrif endurnýjunar á úthlutun aflaheimilda á grundvelli aflareynslu er talið að framkvæmanlegt sé að miða áfram við hlutfallslega skiptingu veiðileyfis og var ekki talin þörf á að lagabreytingar taki til þessa þáttar. Þá er ekki talið nauðsynlegt að setja reglur um geymslu rúmmetra.

Skoðanir manna um endurnýjunarreglur fiskiskipa eru og hafa verið mjög skiptar. Óhætt er að segja að starfshópurinn, sem skipaður var til að gera tillögur um þetta málefni, endurspeglaði hinar ólíku skoðanir stjórnmálamanna og hagsmunaaðila í þessu efni. Sumir telja flotastýringu með einum eða öðrum hætti mjög mikilvægt tæki við fiskveiðistjórnun en aðrir eru þeirrar skoðunar að stjórnkerfi á borð við aflahlutdeildarkerfi það sem er í gildi á Íslandi sé fullnægjandi og því ekki þörf á slíkum fjárfestingarhömlum. Óhætt er að fullyrða að sú hagræðing sem fylgt hefur aflahlutdeildarkerfinu hafi leitt til þess að takmarkanir á flotastærð skipta minna máli en áður og endurspeglast í þeirri staðreynd að rúmmetraverð hefur farið mjög lækkandi að undanförnu, m.a. vegna aukins framboðs í þeim efnum. Hagkvæmniástæður eru þó enn því í vegi að víkja alveg frá þessum reglum. Má í því sambandi benda á hugsanlega hættu á auknum þrýstingi fyrir hærri heildaraflaákvörðun og ýmis eftirlitsvandamál en skip sem ekki hafa aflaheimildir í samræmi við afkastagetu geta skapað aukna hættu á brottkasti og/eða löndun fram hjá vigt. Í ljósi þeirra ólíku sjónarmiða sem meðlimir starfshópsins stóðu fyrir er það vissulega ánægjulegt að samkomulag skyldi hafa tekist um þær tillögur sem hér eru lagðar fram í frumvarpsformi fyrir Alþingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. sjútvn.