Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:53:09 (1546)

1997-12-02 14:53:09# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir fræðsluna. Mér er nú betur ljóst en áður að þetta er lagafrv. alveg eins og önnur lagafrv. og það mun sem sagt vera hugsun flutningsmanna að því verði hægt að breyta síðar á öldinni eða jafnvel á næstu öld. Þetta sé ekki borg á bjargi reist þannig að hugsanlega sé hægt að gera á þessu breytingar og það eru auðvitað mjög mikilsverðar upplýsingar.

Mín gagnrýni, herra forseti, lýtur að því og ég vona að hv. þm. skilji að þrátt fyrir það skref sem hér er stigið þá er málið ekki gert upp. Í þessari niðurstöðu felst ekki skýr framtíðarstefnumótun. Það er alveg ljóst. Það bíður, það er í óvissu. Og orð sem hér hafa fallið og vísa til ákveðinna hluta í greinargerð eða fylgiskjali með frv. gefa óvissu framtíðarinnar til kynna. Þetta er ekki heppilegt og ég bendi á það hér. Auðvitað er aldrei hægt að ganga frá hlutum af þessu tagi í eitt skipti fyrir öll. Öll mannanna verk eru þannig að þau koma til skoðunar og lagasetning ekkert síður en annað. En það er betra að reyna að hafa hlutina eins skýra og mögulegt er, sérstaklega þegar um svona þætti er að ræða sem koma inn í mat manna t.d. á ákvörðunum um miklar fjárfestingar. Þetta veit ég að hv. þm. er mér alveg hjartanlega sammála um. En að burðast með þetta takmörkunarkerfi, rúmmetrana, til viðbótar við aflatakmörkunarkerfið og hið fjölþætta og samsetta stjórnunar- og stýringarkerfi sem felst í löggjöfinni að öðru leyti, landhelgislínur, veiðarfæratakmarkanir og fjölmargt fleira. Menn gleyma oft í umræðum um þessi mál að fiskveiðistjórnunin og takmörkunin er fjölþætt og samsett úr mörgu. Mér hefði fundist til einföldunar, herra forseti, að þetta hefði mátt hverfa út úr myndinni.