Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 15:15:53 (1551)

1997-12-02 15:15:53# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nú komið að þeim árlega atburði hér á Alþingi að málefni smábátanna fá enn eina bráðabirgðalækninguna ef svo má að orði komast. Þetta hefur að vísu stundum borið upp á vorin. Nú er svo seint í rassinn gripið að verið er að gera ráðstafanir sem eiga að verða virkar innan þegar hafins fiskveiðiárs vegna þeirrar stöðu sem uppi er, sérstaklega hvað varðar smábáta sem stunda krókaveiðar og var auðvitað löngu fyrir séð að verða mundi. Við því var varað bæði sl. vor, vorið þar áður og vorið 1995 að sá frágangur þeirra mála, sem þá og í öll skiptin síðan hefur verið ákvarðaður af meiri hluta hins háa Alþingis, gæti ekki annað en falið í sér tímabundna ráðstöfun og vandamálin hlytu að koma til kasta Alþingis á nýjan leik þegar að ári. Þetta hefur gengið eftir í öll skiptin og því miður, herra forseti, er óhjákvæmilegt að fara með þá framtíðarspá nú að enn einu sinni muni þetta gerast að ári vegna þess að enn einu sinni er um bráðabirgðaákvörðun eða bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Það kemur skýrast fram í frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða í ákvæði til bráðabirgða I en þar eru festir róðrardagar handfæra- og handfæra- og línubáta á þegar höfnu fiskveiðiári við 40 daga fyrir handfærabátana og 32 fyrir handfæra- og línubátana. Þetta er gert vegna þess að þegar til kastanna kom treystu menn sér að sjálfsögðu ekki til að standa frammi fyrir þeirri miklu fækkun róðrardaga sem ella hefði orðið úr um 84 dögum, ef ég man rétt, á síðasta fiskveiðiári niður í 20 annars vegar og 26 hins vegar. Hér er því lagt til með ákvæði til bráðabirgða, sem gilda á aðeins þetta fiskveiðiár, að þessi mikli niðurskurður gangi að hluta til baka en þó ekki nema að hluta til. Ekkert er sagt um það hvað skal síðan taka við á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 1998. Leiði veiðar til þess að hlutfallslegur afli umfram það sem til skiptanna er í pottinum verði í krafti þessara sóknardaga með svipuðum hætti og hann var á síðasta fiskveiðiári, hvað ætla menn þá að gera? Ætla menn þá að flytja upp á nýtt frv. með ákvæði til bráðabirgða sem bætir við einhverjum dögum á fiskveiðiárinu 1998/1999 o.s.frv. koll af kolli eða hvað? Vissulega er það góðra gjalda vert og ég er stuðningsmaður þess að úr hinni miklu skerðingu róðrardaga sé dregið og hefði reyndar talið að úr því að farið er af stað á annað borð hefði átt að ganga nokkuð lengra og skapa sæmilega lífvænlegt umhverfi fyrir þennan hluta smábátaflotans á fiskveiðiárinu en langvænlegast hefði að sjálfsögðu verið að búa til varanlega reglu sem tryggði einhvern lágmarksdagafjölda. Á móti hefði mín vegna mjög gjarnan mátt setja þak á t.d. þann afla sem handfæra- og línuhópurinn gæti tekið og reyndar vísa ég í því sambandi til frv. sem ég ásamt fleiri hv. þm. hef flutt um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum þar sem tekið er á þessum málum með þeim hætti.

En meginniðurstaðan, herra forseti, þegar farið er yfir þessi ósköp, sem sá frumskógur stjórnkerfa fyrir smábátaútgerð á Íslandi er orðinn, er náttúrlega þessi, herra forseti. Þetta kerfi þarf að stokka upp í heild sinni. Það er náttúrlega gersamlega fráleitt að ætla til frambúðar að baksa með ferfalt stjórnkerfi fyrir þennan minnsta hluta flotans, báta undir 10 lestum að stærð. Það væri, herra forseti, fróðlegt að vita hverjir aðrir en innvígðir átta sig á því hvernig þessi frumskógur er orðinn og vita þá staðreynd að við lýði er sem sagt ferns konar fyrirkomulag hvað varðar sjósókn þessa voðalega flota til að verja þorskstofninn eða fiskana í sjónum fyrir áganginum af sókn smábátanna. Niðurstaðan hlýtur að verða sú líka vegna þess, herra forseti, að þetta er ekki aðeins flókið og þetta leiðir ekki aðeins af sér vandræðagang af því tagi sem við höfum orðið vitni að á Alþingi undanfarin ár, heldur fyrst og fremst vegna þess að þetta kerfi felur í sér mikla mismunun. Það er innbyggt í þetta kerfi gríðarlega misjöfn aðstaða manna grundvölluð á vali á undanförnum árum trekk í trekk, á þvinguðu vali sem mönnum var gert að framkvæma 1990 og 1995 og svo á enn einu sinni að opna fyrir val og enn einu sinni eru aðstæðurnar þannig að menn velja annars vegar einhverjar aflatakmarkanir á móti fullkominni óvissu með það sem biði þeirra ef þeir halda áfram í sóknartakmarkandi kerfi. Þannig eru aðstæðurnar og hafa verið í öll skiptin, að menn hafi í raun og veru verið settir upp við vegg og látnir velja um fyrirkomulag sem hefur síðan haft afgerandi áhrif á útkomu þeirra í bullandi óvissu um það hvað biði þeirra. Það versta er svo að sjálfsögðu það að síðan hafa leikreglurnar ekki verið framkvæmdar eins og til stóð heldur hefur þeim trekk í trekk verið breytt. Ef einhvern tíma verður á komandi árum svo kjarkmikill sagnfræðingur uppi á Íslandi eða námsmaður við háskólastofnun sem treystir sér til að fara ofan í saumana á þeirri sögu frá því að takmarkanir á sókn eða fjölda smábáta hófust á árunum 1985--1986 eða 1986--1987 og skrifar hana alla saman, þá held ég að ýmsum mundi koma á óvart það sem út úr henni kæmi og þá auðvitað fyrst og síðast sú harkalega mismunun sem þetta kerfi hefur leitt yfir annars sambærilega setta aðila, þ.e. þá sem áttu smábát og reyndu að lifa af því að sækja sjó á litlum fiskibáti.

Ráðstafanirnar sem eru lagðar til eru út af fyrir sig viðleitni eins og hefur verið á ferðinni nokkur undanfarin ár til að stoppa í verstu götin og draga eitthvað úr þessu óréttlæti. Hér er enn á ferðinni ákveðin viðleitni til að koma eitthvað til móts við hinn gleymda flota sem tvímælalaust verst fór út úr þessum takmörkunum öllum, þ.e. smábátana sem völdu aflamark 1990, og sátu síðan lengst af uppi með óbætta skerðinguna á þorskaflamarkinu á sama tíma og aðrir gátu í sóknarkerfi bætt verulega sína stöðu.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að langvænlegasta fyrirkomulagið væri takmarkandi kerfi af mjög hliðstæðum toga við það sem þorskaflahámarksfyrirkomulagið er. Það væri um að ræða tiltölulega frjálsa sókn þessa flota, e.t.v. með einhverri stýringu með hliðsjón af veiðarfærum sem byggði á óframseljanlegu hámarki hvað þorskveiðarnar snertir og að sjálfsögðu ætti allur flotinn að vera í slíku samræmdu kerfi. Það er góðra gjalda vert að þorskaflahámarkið er núna viðurkenning á því að setja girðingu eða lag í útgerðina þannig að veiðiréttindin færist ekki upp fyrir þá stærð sem þar er á ferðinni og haldist innan hópsins. Hitt verð ég að segja að það er miklu síður gleðiefni að framsals- og jafnvel leigumöguleikarnir eru núna að vakna til lífsins í því kerfi þannig að það er að taka á sig æ ríkari einkenni venjulegs kvótakerfis eða aflamarkskerfisins með framsalsmöguleikum og jafnvel leigumöguleikum, að vísu innan hópsins. Ég get ekki sagt, sem mikill andstæðingur þess að menn megi leigja frá sér afnotaréttinn án þess að nota hann sjálfir, að ég sé hrifinn af því þó að ég skilji út af fyrir sig rökin fyrir að gera það en þau eru m.a. að sumir þessara báta fengu á grundvelli aflareynslu sinnar á viðmiðunarárum krókabátanna svo ríflega úthlutun og/eða hafa bætt það miklu við sig með viðskiptum að þeir eiga orðið í vandræðum með að ná sínum hlut. Það hefur skapað þrýsting á að þeir gætu að einhverju leyti leigt réttindin frá sér. Mér finnst siðferðislegur grundvöllur þeirrar leigustarfsemi í ljósi þess hvernig réttindin eru til komin hjá þessum hópi --- að þau eru áunnin á sama tíma og aðrir urðu að sæta skerðingu að fullu --- vera nokkuð hæpin svo ekki sé meira sagt. Reyndar má segja það um allt leigukerfið í aflamarkskerfinu eða fiskveiðistjórnarkerfinu að siðferðislegur grundvöllur þess er að mínu mati afar hæpinn því að fiskveiðirétturinn á að vera afnotaréttur og eðli málsins samkvæmt eiga menn fyrst og fremst að nýta hann sjálfir eða láta hann öðrum eftir og þá ekki fyrir endurgjald. Það hefur allan tímann, herra forseti, verið mín skoðun að þetta stingi einna mest í augu hvað varðar spurningar um siðferðislegan grundvöll eða réttlæti sem margir taka sér í munn um þessar mundir í sambandi við stjórnkerfi fiskveiða. Það ber að gera skýran greinarmun á annars vegar varanlegu framsali þeirra sem hætta í sjávarútvegi og láta öðrum réttindin eftir þó endurgjald komi fyrir eða þó að það gerist í viðskiptum og hinu að menn geti ár eftir ár vegna hinnar vægu nýtingarkröfu leigt eða fénýtt veiðiréttinn, afnotaréttinn með því að láta aðra nota hann fyrir sig.

Um ákvæðin um Þróunarsjóðinn, herra forseti, vil ég segja að út af fyrir sig er eðlilegt að þau ákvæði séu vakin til lífsins á nýjan leik úr því að farið er í aðgerðir af því tagi sem hér eru undir, þ.e. að endurval er opnað, að vísu aðeins í aðra áttina, að þeir sem eru á sóknartakmörkunum eða róðrardögunum geti fært sig yfir í þorskaflahámarkið, þá sé jafnframt við þær aðstæður opnaður sá möguleiki að menn geti úrelt báta. En ég hef efasemdir um að prósentan sem hér er sett inn dugi til þess að menn telji sér almennt fært að velja þann kost. Það kom á daginn að í raun var staða þeirra sem gátu annars vegar fengið 60% af húftryggingaverðmæti bátanna og hins vegar ráðstafað veiðiréttinum í þorskaflahámarkskerfinu mun hagstæðari eða betri en hinna sem eingöngu höfðu bátsverðmæti til að úrelda og engan veiðirétt sökum þess að þeir voru í krókakerfinu. Ég held að nær væri að þetta hlutfall væri 90% eða jafnvel 100% af tryggingaverðmætinu til þess að menn almennt teldu sér það færa leið, að fara þó ekki væri nema nokkurn veginn eignalausir út úr því að úrelda báta sína. Þetta á að sjálfsögðu augljóslega við þegar um er að ræða dýr tæki sem mikið hefur verið lagt í að útbúa á undanförnum missirum. Almennt verður staða þeirra sem núna standa frammi fyrir því að taka þá ákvörðun hvort þeir eigi að færa sig á milli kerfa eða halda áfram í óvissunni vond en þó langverst þegar í hlut eiga ungir menn með nýja eða dýra báta sem sjá ekki rekstrargrundvöll í þeim takmörkuðu veiðiheimildum sem þeir fengju í þorskaflahámarkinu á grundvelli sinnar veiðireynslu. Eiga þeir að fara inn í það og hefja þar leiguhark og berjast þar um þrátt fyrir að afkoman sem þar blasir við sé mjög erfið eða eiga þeir að halda áfram í kapphlaupinu á þessu ári og í framtíðinni? Ég bið menn að hugleiða augnablik í hvaða aðstæður við erum að dæma þá einstaklinga sem þurfa að taka þessar ákvarðanir. Er einhver hér í salnum, herra forseti, sem vildi upplifa sjálfan sig í þessari stöðu, að þurfa að taka afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð sína og kannski afkomu og fjölskyldu sinnar við aðstæður af þessu tagi? Það er það sem löggjafinn er að ætlast til. Við alþingismenn eigum að velta því aðeins fyrir okkur og skiptir mig þá engu þó að svo eigi að heita að hér sé á ferðinni eitthvert samkomulag við samtök smábátasjómanna. Það leysir alþingismenn ekki undan þeirri siðferðislegu skyldu og þeirri samviskuspurningu að fara vandlega yfir það við lagasetningu af þessu tagi hvort þetta eru yfir höfuð boðlegar aðstæður sem við erum að dæma menn í. Er ekki nóg komið, herra forseti?

[15:30]

Hafa menn ekkert lært af því sem gerðist í kjölfar hins þvingaða valds árið 1990 og aftur 1995? Það er a.m.k. svo með undirritaðan að þá verður mér sjaldan jafnsvarafátt eins og þegar ég stend frammi fyrir því á fundum í sjávarútvegsbyggðarlögum vítt og breitt um landið að ræða við þá menn sem hlið við hlið tóku mismunandi ákvarðanir á þessum tíma og hafa síðan verið mjög misjafnt settir eftir það. Það á að vera til eitthvað, herra forseti, í stjórnsýsluréttinum sem heitir jafnræðisregla og ég er hræddur um að hún hafi stundum farið fyrir lítið í ljósi þess sem hefur leitt af endurtekinni lagasetningu hvað varðar málefni smábáta og þessa endurvals eða þvingaða vals sem þar hefur átt sér stað.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, hvað varðar breytingarnar í ákvæðum til bráðabirgða um meðferð jöfnunarpottsins sem þar á í hlut, þ.e. ákvæði til bráðabirgða II í frv. á þskj. 377, fiskveiðistjórnarlögunum, að ég held að sú breyting sé í sjálfu sér eðlileg eða sú viðleitni sem þar er á ferðinni, að nýta með öðrum hætti og ganga þá varanlega frá þessum 500 lestum sem settar voru inn til ákvörðunar eða úthlutunar á grundvelli ákvarðana Byggðastofnunar og í fyrsta sinn á fiskveiðiárinu 1995 og 1996. Hins vegar verður eins og jafnan að spyrja sig að því hvort þau viðmiðunarmörk eða meðferð þessara veiðiheimilda sem þarna eru sett séu vel ígrunduð. Það liggur í hlutarins eðli að þarna er t.d. verið að gera býsna mikinn mun á aðilum sem t.d. eru samtals með 60 þorskígildislestir og hinna sem lenda þar rétt fyrir neðan. Það er auðvitað gallinn á því að velja öll viðmiðunarmörk af þessu tagi að einhverjir verða fyrir barðinu á þeim beinlínis með því að liggja öðru hvoru megin rétt við mörkin. Þar hefði að mínu mati mátt skoða t.d. aðferðir af því tagi að láta þetta í tonnum talið halda sér eða nota það sem stundum í kjarasamningum er kallað krónutölureglan en ekki hlutfallsreglan eða prósentureglan og láta það gilda til þess að draga úr þeirri mismunun sem ella verður milli þeirra sem lenda rétt niður fyrir annars vegar og rétt upp fyrir mörkin hins vegar. Mönnum kann að finnast að þarna sé nú bitamunur en ekki fjár á ferðinni, þ.e. 2,5 lestir af þorski. En það er bara þó nokkuð þegar að því kemur að um er að ræða tekjur, kannski að miklu leyti nettóviðbótartekjur, til þeirra sem hafa allan fastan kostnað fyrir hendi og geta sótt sér þennan viðbótarafla og lagt hann inn.

Ég a.m.k., herra forseti, vil hafa fyrirvara á um þennan þátt málsins og reyndar fleira í þessu sambandi, dagafjöldann hjá sóknarbátunum og annað sem ég tel ástæðu til að fara betur og rækilegar ofan í saumana á. Það væri að sjálfsögðu æskilegt að tími ynnist til að gera útreikninga og láta einfaldlega reikna út dæmi þannig að menn gætu glöggvað sig á því hvernig þetta kemur út fyrir hvern og einn. Á hinn bóginn ber brýna nauðsyn til að afgreiða þessi mál vegna þeirrar óvissu sem hangir yfir mönnum eins og málin standa og vegna þess að við erum komin langt inn á það fiskveiðiár sem þessar breytingar eiga að taka til sem er auðvitað hin hraklegasta útkoma, að vera með þessi mál í höndunum þegar komið er langt inn á fiskveiðiárið og menn bíða í landi með sín atvinnutæki og hafa ekki treyst sér til þess að nota þau vegna þessarar óvissu sem yfir hefur legið.

Að síðustu, herra forseti, verð ég svo að segja að ég er bjartsýnismaður og bind þar af leiðandi enn þá vonir við það að að lokum renni upp sú gleðilega tíð á Alþingi að frumvörp af þessu tagi þurfi ekki að vera árlegur viðburður og árlegt viðfangsefni okkar þingmanna að glíma við þessi ósköp. Menn reyni að koma sér í þær aðstæður að taka varanlega á þessum málum og útkljá þau í eitt skipti fyrir öll. Hér er ekki lengur orðið um það stóra hluti að ræða, hvort heldur í fjölda, sókn eða álagi á fiskstofnana, að okkur eigi að vera ofvaxið að klára þetta mál sómasamlega og koma þokkalegum starfsgrundvelli undir smábátaútgerðina, það sem eftir er af henni og ekki hefur þegar verið leyst úr, þannig að um þetta geti skapast friður og stöðugleiki til frambúðar litið.