Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 16:03:30 (1555)

1997-12-02 16:03:30# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:03]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Einars Kr. Guðfinnssonar að hann fagnaði mjög frv. En í gegnum tíðina hefur andstaða við kvótakerfið með öllum göllum þess, braski o.s.frv., helst komið frá Vestfjörðum. En hitt er alveg ljóst að hér er verið að reyna að tryggja það að sem flestir krókabátar séu í kvótakerfi smábátanna. Ég held að það væri eðlilegt að hv. þm. gerðu þá a.m.k. þingi og þjóð grein fyrir því hvort þeir séu fallnir frá þeirri skoðun sinni að kvótakerfið sé ekki fyrir byggðirnar eða bátana heldur hitt að þeir séu gengnir í björg með hæstv. sjútvrh. og fallnir frá þeirri andstöðu sem þeir hafa sýnt kvótakerfinu í gegnum tíðina. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram því að hv. þm. fagnaði mjög fram komnu frv. sem hefur það skýrt að markmiði að tryggja og festa í sessi kvótakerfi smábátanna.