Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 16:04:50 (1556)

1997-12-02 16:04:50# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:04]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mínar skoðanir á stjórn fiskveiða hafa í sjálfu sér ekki verið að breytast neitt og ég held að það sé mikill útúrsnúningur hjá hv. þm. að halda því fram að hér sé verið að festa í sessi kvótakerfi fyrir smábáta. Þvert á móti er um að ræða kerfi sem felur í sér mikla möguleika á frjálsri sókn. Það sem hefur fyrst og fremst verið gildi þessa kerfis er sú staðreynd að möguleikar manna til þess að njóta nálægðarinnar við miðin hafa verið að festast í sessi.

Út af fyrir sig er það rétt að þarna er verið að setja upp þak á afla í einni tegund, þ.e. þorskinum. Það er sú aðferð sem menn hafa oft og tíðum hugsað sér sem lausn í ýmsum fiskveiðistjórnarkerfum. Það breytir hins vegar ekki að því þetta kerfi gerir það að verkum að þær útgerðir sem eru næst miðunum, alveg eins og smábátaútgerðin er t.d. á Vestfjörðum, nýtur þess í auknum afla eins og ég rakti áðan. Það er auðvitað megingildi þessa fiskveiðistjórnarkerfis fyrir smábátana. Þetta er vissulega sóknartengt kerfi þó það feli í sér þorskaflahámark. Þetta er sóknartengt kerfi sem skilað hefur gríðarlegri aflaaukningu fyrir smábátana og hefur nýst sérstaklega vel þeim byggðarlögum sem hafa staðið lakast en eru hins vegar nærri gjöfulum miðum og við höfum séð það gerast í kerfinu síðan það var sett á laggirnar. Staða þessara báta hefur fyrst og fremst verið að styrkjast á þeim stöðum sem liggja best við gjöfulum þorskveiðimiðum og gjöfulum miðum að öðru leyti. Það hefur kannski skapað forskot ýmissa byggðarlaga, þ.e. hvort þau hafa haft möguleika á því að sækja í aðrar fisktegundir. Við höfum séð það gerast á vestanverðu landinu að vegna nálægðarinnar við steinbítsmið og ýsumið á sumrin, hafa þessi byggðarlög hafa verið að rétta úr kútnum að þessu leyti.