Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 16:08:01 (1558)

1997-12-02 16:08:01# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:08]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hv. þm. hefur áttað sig á því að ekkert er öruggt undir sólinni og það ætti kannski ekki að koma á óvart, a.m.k. ekki öðrum hv. þm. Fiskveiðistjórn hlýtur eða á a.m.k. að hafa það að markmiði að treysta að þær byggðir sem eru nálægt gjöfulum fiskimiðum geti notið þeirrar nálægðar. Það, virðulegi forseti, tel ég vera höfuðkost þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við höfum verið að innleiða í smábátahópinn, að skapa slíkt forskot fyrir þessar byggðir. Það er ómótmælanlegt vegna þess að það er stutt tölum. Tölurnar sem ég rakti áðan um það hvernig staðir á vestanverðu landinu hafa verið að rétta úr kútnum vegna þess að þeir hafi getað notað þetta forskot sem nálægðin við miðin færir þeim, sýna okkur að þetta kerfi gefur miklu fleiri sóknarfæri en aflamarkskerfi með framseljanlegum aflakvótum. Hið hefðbundna aflamarkskerfi þar sem nánast hver einasti tittur er settur í kvóta hefur gert það að verkum að þessar byggðir standa núna höllum fæti. Þess vegna, virðulegi forseti, er það þannig að þó menn geti deilt um það hvað menn vilja kalla þetta kerfi, þá er það algert aukaatriði. Aðalatriðið er það að þetta kerfi býr til ný verðmæti á stöðum þar sem menn voru að tapa möguleikunum til þess að geta sótt sjóinn.