Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 16:10:53 (1560)

1997-12-02 16:10:53# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:10]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðalatriðið varðandi þessa úthlutun Byggðastofnunar er hvort eitthvað af þessari úthlutun hafi fallið dautt niður. Mér er ekki kunnugt um að nokkurt einasta tonn hafi fallið niður. Menn höfðu geymslurétt í þessu kerfi eins og í aflamarkskerfinu og gátu þess vegna nýtt sér það þegar að úthlutun kom og töluvert var liðið á fiskveiðiárið að eiga þarna viðbótarheimildir sem hafa síðan nýst.

Mér er ekki kunnugt um að neitt af þessu hafi fallið niður. Þetta hefur nýst mönnum fullkomlega og alveg prýðilega. Ef ég tek dæmi af svæði þar sem ég þekki mjög vel til, þá var það þannig að þegar töluvert var farið að líða á árið stóðu menn frammi fyrir því að höggva mjög mikið í þorskaflahámarkið sitt. Þá drógu menn úr sókninni, reyndu að beina henni yfir í aðrar tegundir og sem betur fer tókst það mjög vel sumarið 1996. Þannig gátu menn farið miklu sparlegar með þorskaflahámarkið sitt og áttu þess vegna þorskaflahámark til góða þegar nýtt fiskveiðiár hófst, en því lauk núna fyrir rúmum tveimur mánuðum. Því get ég ekki verið sammála hv. þm. um að þetta út af fyrir sig sýni fánýti þessa Byggðastofnunarpotts sem kenndur er við bæinn Seljavelli heldur tel ég að þetta hafi skilað ýmsum byggðarlögum verulega mikilli aflaaukningu. Eins og ég sagði áðan er það einkanlega vegna þess að sum þessara byggðarlaga eru svo vel sett að þaðan er hægt að sækja í aðrar tegundir og það hafa menn gert af miklum dugnaði og útsjónarsemi. Því er mikilvægt að árétta að hvert einasta tonn sem kom inn í þessi byggðarlög, hart leikin af kvótaniðurskurði og kvótamissi, var mjög þýðingarmikið.