Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 16:23:50 (1562)

1997-12-02 16:23:50# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:23]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og jákvæðar undirtektir margra hv. þingmanna undir meginefni frv. og vilja til að afgreiða málið skjótt fyrir jólaleyfi. Eins og fram hefur komið í umræðunni skiptir það mjög miklu máli að Alþingi geti tekið afstöðu til frv. á þessum tíma þannig að efnisákvæði þess komi að notum þegar á þessu fiskveiðiári.

Frv. byggir á því samkomulagi sem varð milli ráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda í fyrra og þeirri löggjöf sem sett var á grundvelli þess. Hér er fyrst og fremst verið að laga aðstæður ákveðinna hópa innan smábátakerfisins að þeim heildarramma sem þá var ákveðinn. Menn spyrja vissulega sem svo: Getur þessi vandi ekki komið upp aftur? Koma menn ekki aftur og enn á ný með breytingar af þessu tagi? Í því sambandi ætla ég aðeins að minna á að ég sé ekki að menn hafi það svigrúm sem menn hafa hér að gefa mönnum aftur kost á endurvali og ég sé ekki að föng séu á því í þriðja sinn að gefa mönnum kost á úreldingartilboðum. Ég held því að menn verði að reikna með að hér sé verið að slá utan um þá þróun sem mörkuð var með löggjöfinni í fyrra en mjög eðlilegt í því samstarfi sem tekist hefur við Landssamband smábátaeigenda að auðvelda aðlögun ákveðinna hópa að þeim ramma sem þar var ákveðinn.

Það er vissulega svo að við höfum aukið mjög svigrúm smábátaflotans við veiðar hér við land og heimildir hans hafa stóraukist, um 40% bara á tveimur síðustu fiskveiðiárum. Ef við horfum til Noregs samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þaðan, þá eru menn þar að tala um 4.500 báta sem hafa leyfi til að veiða 40 þúsund lestir úr 600--700 þúsund lesta stofni þegar við erum að tala um 30 þúsund lestir fyrir 850 báta úr rúmlega 200 þúsund lesta veiði. Þær ákvarðanir sem við höfum tekið í þessu efni sýnast því vera miklu rýmri heldur en til að mynda Norðmenn hafa gert að þessu leyti.

Auðvitað er það rétt sem hér hefur komið fram að fyrirsjáanlegt var að þeir sem veldu róðrardagakerfið mundu lenda í erfiðleikum og á það var rækilega bent og því vakti það nokkra undrun að fleiri skyldu ekki hafa valið þorskaflahámarkið. Ég hygg að flestir sem vinna í greininni á þeim grundvelli séu tiltölulega ánægðir og sáttir við þá skipan og þess vegna er það mat manna að mun fleiri muni nú velja þorskaflahámarkið, enda gefur það mönnum aukið frelsi til þess að stýra sjálfir sínum eigin veiðum. Ákvarðanirnar sem verið er að taka um framsal byggjast á samþykktum Landssambands smábáteigenda og samkomulagi við þá. Það er verið að opna fyrir varanlegt framsal og takmarkað leiguframsal, eins og fram kemur í frv. Þetta eru mjög mikilvægir þættir til að gefa mönnum svigrúm til að leysa innbyrðis vanda í kerfinu og örugglega mikilvæg forsenda fyrir þá sem hafa áhuga á því að fara úr róðrardagakerfinu yfir í þorskaflahámarkskerfið þannig að það geti gengið greiðlega fyrir sig. Þess vegna þótti okkur eðlilegt að taka tillit til þeirra óska sem fram komu frá smábátaeigendum.

Vegna þeirra spurninga sem hafa komið fram frá hv. 6. þm. Suðurl. og hv. 3. þm. Vesturl. er rétt að vekja athygli á því að ákvæði frv. sem gera ráð fyrir endurvali úr róðrardagakerfinu yfir í þorskaflahámarkið koma fram í ákvæði til bráðabirgða. Það efnisatriði, sem verið er að fjalla um í d-lið 1. gr., lýtur ekki að endurvalinu, það lýtur að heimildum til þess að breyta endurnýjunarreglunum. Það hafa verið alveg fastar girðingar á milli þessara tveggja kerfa. Eftir þessa breytingu geta menn endurnýjað bát í þorskaflahámarkinu með báti úr róðrardagakerfinu. Þar eru margir bátar sem eru tiltölulega nýrri og um margt betri en fjölmargir bátar í þorskaflahámarkskerfinu og með þessu móti sýnist okkur að hægt sé að rýmka fyrir endurnýjun báta í þorskaflahámarkinu og greiða fyrir hagræðingu innan róðrardagakerfisins. Hér er sem sagt ekki um að ræða efnisatriði sem lúta að flutningi á milli kerfanna heldur einvörðungu spurning um að breyta endurnýjunarreglunum. Þess vegna hefur þetta ákvæði í d-lið 1. gr. engin áhrif á veiðirétt manna heldur er einvörðungu verið að fjalla um endurnýjunarreglur.

Herra forseti. Ég held að ég hafi þá vikið að flestum þeim atriðum sem hafa komið fram í umræðunni og ítreka þakklæti mitt til þeirra hv. þingmanna sem tekið hafa þátt í henni í dag.