Skipting afnotaréttar nytjastofna á Íslandsmiðum

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 17:04:50 (1563)

1997-12-02 17:04:50# 122. lþ. 32.8 fundur 254. mál: #A skipting afnotaréttar nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[17:04]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að skipta árlegum afnotarétti nytjastofna á Íslandsmiðum milli íbúa landsins.

Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og galla þess að árlegum afnotarétti nytjastofna á Íslandsmiðum verði skipt jafnt milli allra íbúa landsins. Enn fremur verði kannaðir kostir og gallar annarra mögulegra leiða sem tryggja varanlegt eignarhald þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Forsætisráðherra hafi forgöngu um að gera þessa könnun og henni verði lokið í mars 1998.``

Herra forseti. Ég vil eindregið benda á að hér er lagt til að kannaðir verði kostir og gallar þessarar hugmyndar eða annarra betri, ekkert annað, kostir og gallar.

Öll umræða um auðlindagjald og veiðileyfagjald er mjög loðin. Út og suður ræða menn um ýmsar tegundir af veiðileyfagjaldi eða auðlindagjaldi. Oftast nær skal það renna til ríkisins. Hér er í fyrsta sinn að mínu mati, lögð fram vel útfærð tillaga sem ekki byggir á skattlagningu. Ég undirstrika að hér er ekki um skatt að ræða. --- Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. sjútvrh. gæti verið viðstaddur.

(Forseti (GÁ): Forseti skal gera ráðstafanir til þess.)

Herra forseti. Í stjórnmálayfirlýsingu síðasta landsfundar Sjálfstfl. segir svo, með leyfi forseta:

,,Þar skal það öðru fremur haft að leiðarljósi að stjórnvöld eiga einungis að tryggja stöðugt umhverfi og gott athafnarými atvinnulífs og einkaframtaks, en ekki að hlutast með öðrum hætti til um starfsemi á frjálsum markaði.``

Varðandi veiðar í fiskveiðilögsögunni þá brýtur nauðsyn lög. Það er nauðsynlegt að ríkisvaldið setji reglur en það á ekki að gera meira. Samkvæmt þessari ályktun landsfundarins á ríkisvaldið að vera eins fyrirferðarlítið og hægt er. Því get ég ekki fallist á að á auðlindina verði lagður skattur sem renni til ríkisvaldsins.

Hér er aftur á móti lögð fram tillaga um að þessi eign eða greiðsla fyrir veiðiheimildir renni til íbúa landsins, þ.e. til einstaklinga. Það er í samræmi við stefnu flokksins.

Enn fremur segir í stjórnmálayfirlýsingu landsfundar Sjálfstfl.:

,,Í stefnu Sjálfstfl. í efnahags- og atvinnumálum er frelsi til athafna og framtak einstaklinga lagt til grundvallar. Kappkostað er að efla markaðsbúskap og nýta kosti samkeppninnar enda er það vísasta leiðin til að tryggja grósku og aukna velmegun.`` Frelsi til athafna og framtak einstaklingsins er ekki tryggt með núv. eignarhaldi á veiðiheimildum. Hvorki er um markaðsbúskap né samkeppni að ræða þar sem nýir aðilar geta ekki komið inn í kerfið þar sem það kostar 76 þús. kr. að fá leyfi til að veiða eitt tonn af þorski. Það kostar um 750 þús. kr. að fá að veiða eitt tonn af þorski varanlega. Þar af leiðandi er ekki um að ræða að hér ríki markaðsbúskapur eða samkeppni. Þannig er núverandi kerfi veiðistjórnunar ekki í samræmi við stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstfl.

Í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstfl. um sjávarútvegsmál segir svo, með leyfi forseta:

,,Sjósókn og fiskveiðar hafa verið helstu undirstöður batnandi lífskjara íslensku þjóðarinnar á þessari öld. Stefnan í sjávarútvegsmálum hlýtur því að hafa að höfuðmarkmiði að afkoma heimilanna í landinu verði sem best í bráð og lengd. Til þess þarf að tryggja eftir föngum að arðsemi fiskstofnanna verði sem mest og í þágu þjóðarinnar allrar, enda eru fiskstofnarnir í hafinu sameign hennar. Auðlindum sjávar þarf að skila óskemmdum til komandi kynslóða.``

Þetta voru ályktanir landsfundar Sjálfstfl. sem marka þeim ágæta flokki stefnu.

Í upplýsingariti ríkisstjórnarinnar, Áfangar á réttri leið, segir svo með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið sjávarútvegsstefnunnar eru: Að tryggja og viðhalda hámarksafrakstri til handa íslensku þjóðinni af ábyrgri nýtingu allra auðlinda hafsins.``

Svo mörg voru þau orð. Þetta markmið Sjálfstfl. og ríkisstjórnarinnar er ekki tryggt, herra forseti, með núverandi kerfi eignarhalds á þessari auðlind þjóðarinnar. Sama skoðun hefur komið fram hjá Markúsi Möller hagfræðingi. Ef veiðiheimildirnar eru einkaeign einstaklinga sem þeir geta ráðstafað að vild munu þjóðarhagsmunir eðlilega víkja fyrir hagsmunum þessara einstaklinga þegar þeir taka ákvarðanir.

Þetta höfum við séð gerast nýverið. Mikið magn af kvóta var selt frá Suðurnesjum til Akureyrar og stór hluti af aflaheimildum Vestfirðinga er kominn undir yfirstjórn fyrirtækis á Akureyri. Ekkert í núv. kerfi kemur í veg fyrir að yfirstjórn þessara veiðiheimilda færist hvert á land sem er, jafnvel til útlanda og þá að sjálfsögðu í hendur íslenskra fyrirtækja sem þar starfa alþjóðlega. Fólk mun stofna fyrirtæki sem uppfylla öll formskilyrði. Til þess eru lögfræðingar.

Ég hef ekki á móti því að íslensk fyrirtæki hasli sér völl erlendis, alls ekki. Ég tel það jafnvel af hinu góða. Þau mega bara ekki taka með sér auðlindina sem við höfum barist fyrir í mörgum landhelgisstríðum. Það er enginn munur á íslensku fyrirtæki sem starfar alþjóðlega og erlendu fyrirtæki sem starfar alþjóðlega. Þau láta sína eigin hagsmuni ganga fyrir hagsmunum t.d. íslensku þjóðarinnar. Það er eðlilegt.

Ef við ákveðum að halda áfram með núverandi kerfi á eignarhaldi þurfum við að gera það með opnum augum, sjáandi það sem fram fer, að fiskstofnarnir við strendur landsins eru ekki lengur auðlind þjóðarinnar. Spyrja má hvort auðlind þjóðar geti nokkurn tímann verið í eigu einstaklinga?

Herra forseti. Tillaga sú sem ég legg hér fram hefur verið kölluð kommúnistaplagg og ekki í heiðursskyni. Þó er hún eins langt frá því að vera kommúnismi og hægt er. Tillagan byggist á séreign einstaklinga og markaðsvæðingu sem sumt vinstra fólk mundi kalla brask. Hvernig getur það þá verið séreign? Jú, ef maður ákveður að breyta íbúð sinni í próventusamning, þ.e. hann selur t.d. tryggingafélagi íbúðina og fær að búa í henni leigufrítt til æviloka og fær jafnframt lífeyri. Þetta er þekkt form. Þá breytir hann einni eign í aðra eign. Þannig er próventusamningurinn eign, nákvæmlega eins og íbúðin var áður. Þetta er séreign. Á sama hátt er hlutdeild Íslendinga í veiðiheimildum allra landsmanna. Hlutdeild hvers Íslendings í veiðiheimildinni er séreign einstaklingsins. Þannig að eignarhugtakið er algjörlega klárt. Hér er verið að tala um séreign einstaklinga.

Markaðsvæðingin fælist í því að hver íbúi landsins mundi reyna að selja sinn hlut hæsta verði. Þannig að allir Íslendingar tækju þátt í markaði um þessa hluti sem sumir kalla brask, aðallega vinstri menn. Þetta er alþýðukapítalismi. Þessi tillaga er því alþýðukapítalismi í samræmi við stefnu Margrétar Thatcher hinnar bresku og er þar af leiðandi í samræmi við stefnu margra í mínum flokki.

Í þessu sambandi vil ég vitna til prófessors Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Í bók sinni Hádegisverður er aldrei ókeypis segir hann svo á síðu 257, með leyfi forseta:

,,Setjum svo, að olía finnist skyndilega fyrir ströndum landsins eða gull í Vatnajökli. Þá mætti vissulega stofna almenningshlutafélag, sem hlyti óskoraðan eignarrétt til olíunnar eða gullsins, og senda öllum íslenskum ríkisborgurum hlutabréf í þessu félagi í pósti.``

Hann vitnar til breska hagfræðingsins Samúels Brittans sem hafi lagt til að þessi háttur verði hafður á um olíu þá sem ,,Bretar`` eigi í Norðursjó. Hvaða Bretar? Ríkið eða fólkið? Ef breskur almenningur á olíuna þá er eðlilegt, finnst Brittan, að hann fái sjálfur að njóta afrakstursins. Hér er akkúrat þetta lagt til. Að íslenskur almenningur, einstaklingar, fái að njóta þessarar auðlindar sem skyndilega hefur orðið til.

[17:15]

Í ofangreindri bók prófessors Hannesar Hólmsteins segir enn fremur: ,,Móse veitti öllum gyðingum einmitt jafnan hlut í manna, því er féll af himnum ofan í eyðimerkurgöngunni forðum`` og lýkur hér með tilvitnun í prófessor Hannes Hólmstein Gissurarson.

Þau verðmæti sem við erum að fjalla um, þ.e. verðmæti veiðiheimilda mynduðust skyndilega þegar aðgangur að auðlindinni var takmarkaður. Þá fyrst urðu til verðmæti, þá féll manna af himnum. Við erum því að fjalla um nákvæmlega það sama og prófessor Hannes gat um. Ef gull finnst skyndilega, ef einhver verðmæti finnast skyndilega, þá á að dreifa því til fólksins.

Herra forseti. Úthlutunin sem við erum að fjalla um var tilviljunarkennd og það truflar réttlætiskennd fólksins. Hæstv. sjútvrh. sagði svo á aðalfundi LÍÚ:

,,Trúlega hafa ekki jafnfáir sjómenn, útvegsmenn, fiskverkafólk og fiskverkendur lagt jafnmikið af mörgum til jafnmargra á jafnskömmum tíma eins og eftir að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var innleitt.``

Það var nefnilega það. Hvernig var svo auðlindinni útdeilt, hvernig var fjármununum útdeilt? Hvað fengu sjómenn, skipstjórar sem lögðu sitt af mörkum? Hvað fékk fiskverkafólkið? Nei, þeir útgerðarmenn sem af tilviljun gerðu út á þessum þremur árum, 1981--1983, fengu allan arðinn. Engan arð fengu þeir útgerðarmenn sem höfðu gert út áður og engan arð fengu þeir skipstjórar sem þó sóttu aflann. Í ræðu sinni sagði hæstv. sjútvrh. enn fremur á aðalfundi LÍÚ:

,,Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að skattheimta af þessu tagi mundi fela í sér mestu fjármagnsflutninga af landsbyggðinni til Reykjavíkursvæðisins í sögu landsins.`` Þetta er hárrétt hjá hæstv. sjútvrh. Það er nefnilega þannig að sérhver aukning á skattheimtu eykur báknið í Reykjavík og skekkir stöðuna í byggð landsins. Ef lagður yrði skattur á auðlindina þá mundi þessi skattlagning skekkja jafnvægi í byggð landsins en hugmynd mín, sem gengur út á það að auka ekki báknið, mun ekki skekkja kerfið. Það er meira að segja þannig að mitt kerfi mun verða mikil markaðsvæðing og það mun lækka verðið á kvótanum sem kæmi landsbyggðinni til góða. Það má rökstyðja að þegar kerfið væri allt komið á eftir 20 ár og t.d. Grandi þyrfti að borga fullt verð fyrir allan fisk sem hann veiðir gætu þeir ekki borgað meira en 20--30 kr. á kg nema fara að skila tapi sem þeir háu herrar kæra sig ekki um. Útgerðin almennt mun því ekki borga meira fyrir kvótann en gefur að meðaltali í hagnað og miðað við núverandi ástand er það 20--30 kr. á kg. Þá gætu nýir menn byrjað úti á landsbyggðinni og keypt kvóta til þess að veiða. Þá eru þeir ekki í samkeppni við aðila sem hafa fengið kvótann gefins.

Herra forseti. Sumir hafa sagt: Þetta er sérviskulegt. Jú, skemmtileg tillaga en gersamlega óframkvæmanleg. Til þess að svara því vil ég lýsa kerfinu. Gert er ráð fyrir 20 ára aðlögun til þess að koma ekki í bakið á þeim útgerðarmönnum sem hafa nýverið keypt kvóta eða eru að rísa upp úr skuldum. Sumir hafa sagt að tíminn sé of langur en ég er ekki sammála.

Herra forseti. Ég get ekki farið nánar út í lýsinguna þar sem tíma mínum er lokið en ég mun fara á mælendaskrá aftur og ljúka ræðunni.