Skipting afnotaréttar nytjastofna á Íslandsmiðum

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 17:27:54 (1565)

1997-12-02 17:27:54# 122. lþ. 32.8 fundur 254. mál: #A skipting afnotaréttar nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[17:27]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þegar menn líta til baka síðar meir og rifja upp málflutning stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna í þessu mikla deilumáli, þegar reynsla hefur fengist af álagningu veiðileyfagjalda ef við búum áfram við lokað kerfi, þá spái ég því að menn muni gjarnan rifja upp þá valkosti sem voru einkum kynntir. Þá munu menn hugsanlega líta til þessarar tillögu með nokkuð jákvæðum huga. Mér fannst afar fróðlegt í ljósi þess að flokkur minn hefur nú í rúman áratug barist fyrir þessu máli, og þá sérstaklega síðustu 5--6 árin, að heyra ræðu hv. flm. og frsm. Péturs Blöndals. Mér finnst líka afar athyglisvert að þegar umræðan fer fram sé enginn ráðherra í núverandi ríkisstjórn viðstaddur. Hæstv. sjútvrh., flokksbróðir flutningsmanns, sýnir honum ekki þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna, hvað þá heldur hæstv. forsrh. sem nýlega sá þó ástæðu til, sem hann gerir afar sjaldan, að tjá sig um málið. Að öðru leyti fer umræðan fram nokkurn veginn fyrir tómum þingsal, þ.e. að undanskildum fjórum hv. þingmönnum í efh.- og viðskn. sem hér eru staddir. Mér fannst fróðlegt þegar hv. frsm. vísaði til landsfundarsamþykktar Sjálfstfl. og lýsti þeirri skoðun sinni að núverandi kerfi sem við búum við að óbreyttu sé ekki í samræmi við stefnu flokksins og færði þau rök fyrir máli sínu að hann væri að koma fram með tillögu að útfærslu og lausnum út frá almannahagsmunum og út frá markaðssjónarmiðum í einhverju stærsta hagsmunamáli sem nú er tekist á um. Hv. þm. sagði að tillaga sín væri í samræmi við grundvallarsjónarmið flokksins eins og þau eru kynnt, a.m.k. á tyllidögum, en þess sér ekki mörg merki að þeir sem eiga að bera fram sjálfstæðisstefnuna úr valdasessi í ríkisstjórnum geri það út frá þessum grundvallarsjónarmiðum.

[17:30]

Það var auðheyrt, bæði af málflutningi hv. þm. sem og af tillögunni sjálfri, að hv. þm. skilur kjarna þessa máls og það er mikið ánægjuefni þar sem þeim skilningi er yfirleitt mjög áfátt þegar talsmenn Sjálfstfl. tjá sig um málið. Kjarni þessa máls er að sjálfsögðu sá að Alþingi --- löggjafarsamkoman --- hefur í nafni fiskverndarsjónarmiða lokað aðganginum að auðlindinni og tekið upp skömmtunarkerfi. Veiðiheimildum er úthlutað ókeypis til valins hóps manna og það er rétt hjá hv. þm. að sú úthlutun er tilviljunarkennd og felur í sér mismunun. Jafnframt er kerfið þannig uppbyggt að veiðiheimildirnar, á fárra höndum, eru að sjálfsögðu orðin fémæti og þau fá markaðsverð og það markaðsverð er í þessu lokaða kerfi býsna hátt. Þeim sem fá gjafakvótana er heimilt að víxla þeim, skipta þeim, selja þá á markaði, leigja þá á markaði og smám saman er að byggjast upp ansi þversagnafullt kerfi þar sem þetta verður að flóknu og erfiðu úrlausnarefni í löggjöf, dómstólameðhöndlun og skattaframkvæmd því að jafnframt eru heimildir til þess að afskrifa þessa endurnýjanlegu heimild út frá skattasjónarmiðum fyrir utan það að þessi fémæti ganga að erfðum og eru orðin deiluefni í hjónaskilnaðarmálum.

Kjarni málsins er með öðrum orðum sá að Alþingi Íslendinga hefur með löggjöf, skömmtunarkerfi, búið til einokunargróða. Sá einokunargróði á ekkert skylt við venjulega arðsemi vel rekinna fyrirtækja. Hann er einfaldlega búinn til með því að loka aðgangnum að auðlindinni og hefði það ekki verið gert hefði fiskveiðiarðinum, sem myndast við þessi skilyrði, með aukinni sókn, ótakmarkaðri sókn, verið sólundað í almenning eins og við þekkjum náttúrlega af langri sögu. En í stað þess að sólunda fiskveiðiarðinum í of mikla sókn og of mikinn tilkostnað er honum úthlutað til tiltölulega fárra og arðurinn sem þannig myndast --- einokunargróðinn, rennur ekki til þjóðarinnar heldur fárra útvalinna. Þau rök sem menn hafa reynt að bera fyrir sig um það að þetta megi leysa með almennri skattalöggjöf hafa ekki staðist, og staðreyndir staðfesta að stærstu fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi sem njóta helst arðsins af þessu greiða afar litla skatta.

Hv. þm. Ágúst Einarsson vék að því að nú seinustu dægrin er eins og brostið hafi á ákveðinn flótti í liði þeirra sem hingað til hafa undir engum kringumstæðum léð máls á því að viðurkenna staðreyndir í þessu máli eða fallast með nokkrum hætti á réttmæti hagfræðilegra röksemda fyrir því að koma þessum einokunararði með einni eða annarri aðferð til almennings. Fyrst hafi menn neitað tilvist málsins, menn hafa harðneitað því að staðreyndirnar væru eins og hér hefur verið lýst. Nú ber hins vegar svo við að undanhaldið er hafið. Hver aðilinn á fætur öðrum er nú farinn að viðurkenna réttmæti þessara grundvallarsjónarmiða, jafnvel þótt þeir geri það með nokkurri tregðu og vísi framkvæmdinni á einhvern óvissan tíma í framtíðinni. Ágætt dæmi um þetta er skýrsla Verslunarráðsins og umræðan sem orðið hefur í framhaldi af því. Meira að segja harðvítugasti málsvari núverandi einokunargróða, formaður eða framkvæmdastjóri í LÍÚ, hefur látið fara frá sér ummæli á þá leið að við viss skilyrði, einhvern tíma í óvissri framtíð, væri hugsanlegt að fallast á slíkt gjald. Hæstv. forsrh., sem á seinasta landsfundi Sjálfstfl. fór hamförum í þessu máli, hefur einnig látið orð falla á þá leið að ef gjaldtakan væri nógu lítil og yrði tekin upp einhvern tímann síðar, þá væri nú lítið mál að ná sátt í þessu máli. Meira að segja hæstv. sjútvrh. sem flutt hefur marga eldmessuna gegn þessu máli er farinn að taka undir. Þannig eru að því leyti nokkur skil að verða í málinu. Menn eru hættir að berja höfðinu við steininn, hættir að neita staðreyndum. (Forseti hringir.) Og í þeim skilningi séð er kannski í framtíðinni kominn tími til að við ræðum fyrst og fremst um --- ekki grundvallarrökin, hagfræði- og réttlætisrökin --- heldur um útfærsluna.

Og ég vil, virðulegi forseti, einfaldlega nota þennan tíma til þess að segja að þessi tillaga hv. þm., Péturs Blöndals, er mjög þarft og virðingarvert innlegg í þá umræðu.