Áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 13:49:00 (1573)

1997-12-03 13:49:00# 122. lþ. 33.2 fundur 268. mál: #A áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á undanförnum missirum og árum hefur færst í vöxt að fyrirtæki bjóði ýmis afsláttarkjör og fríðindatilboð eins og frípunkta til að laða að sér viðskiptavini. Í skýrslu samkeppnisráðs, um stjórn og eignatengsl í íslensku atvinnulífi sem kom út fyrir nokkrum árum er einmitt fjallað um samkeppnistakmarkanir og markaðsyfirráð. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sú hætta er alltaf fyrir hendi að markaðsráðandi fyrirtæki sem ekki nýtur aðhalds samkeppninnar verði óhagkvæmt í rekstri um lengri tíma eða nái miklum hagnaði með því að verðleggja framleiðsluvörur sínar hærra en ella, hvort tveggja með óæskilegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið. Jafnframt hefur reynslan sýnt að fyrirtæki hneigjast til að reyna að halda markaðsráðandi stöðu sinni og halda keppinautum frá með ýmsum hætti. Samkeppnislög hafa því yfirleitt að geyma ákvæði sem ætlað er að stemma stigu við misnotkun markaðsyfirráða. Misnotkun getur lýst sér með ýmsum öðrum hætti en of háu verði. Sígilt dæmi um misnotkun markaðsyfirráða er að lækka verð vöru eða jafnvel selja vöru undir kostnaðarverði til að koma keppinaut á kné sem hefur ekki fjármuni til að gera slíkt hið sama.``

Þá kemur fram að fyrirtæki beiti oft sérstökum afsláttarkjörum og flóknum afsláttarreglum þar sem þeir sem sýna viðskiptatryggð njóti sérstakra kjara umfram aðra. Þetta er undir kaflanum um markaðsyfirráð og samkeppnistakmarkanir.

Það er einnig ástæða til þess að benda á að nýlega kom fram í einum fjölmiðli að punktasöfnun valdi hækkunum flugfargjalda innan lands og talað er um fargjaldahækkun um þúsundir króna. Þar er því beinlínis haldið fram að þessi punktasöfnun hafi áhrif í þá veru að hækka flugfargjöld innan lands.

Maður veltir því þá fyrir sér með afsláttarkjör eða fríðindatilboð, t.d. frípunkta sem ekki allir geta nýtt, hvort þeir sem ekki geta nýtt sér þessa frípunkta greiði fyrir þá með hærra verði á vöru og þjónustu, eins og t.d. er haldið fram hér í þessu blaði. Því hef ég talið ástæðu til þess að spyrja hæstv. viðskrh. eftirfarandi spurninga:

Hafa afsláttarkjör, fríðindatilboð (t.d. frípunktar), samræmdir viðskiptaskilmálar og þess háttar samningar hjá fyrirtækjum og stofnunum í atvinnu- og viðskiptalífi haft skaðleg áhrif á samkeppni og stuðlað að hærra verði á vöru og þjónustu til neytenda?

Hefur Samkeppnisstofnun kannað sérstaklega hvort framangreind fríðindatilboð og samræmdir viðskiptaskilmálar brjóti í bága við ákvæði samkeppnislaga?