Áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 13:56:15 (1575)

1997-12-03 13:56:15# 122. lþ. 33.2 fundur 268. mál: #A áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör við fsp. minni og kom ýmislegt áhugavert þar fram. Ráðherrann heldur því fram að ekki hafi verið sýnt fram á að ýmiss konar fríðindatilboð hafi áhrif í þá veru að hækka verð á vöru og þjónustu til neytenda. Hann bendir jafnframt á að Samkeppnisstofnun hafi gert ýmsar athugasemdir við skilmálana. En hefur það verið sérstaklega kannað hvort þessir frípunktar eða fríðindatilboð hafi haft áhrif á verð á vöru og þjónustu til neytenda? Mér fannst koma fram síðar í máli ráðherra að það hafi t.d. ekki verið kannað sérstaklega hvort þetta hafi haft skaðleg áhrif og þá væntanlega á verð á vöru og þjónustu. Mun ráðherra eða réttara sagt Samkeppnisstofnun beita sér fyrir því að þetta verði kannað sérstaklega?

Ég spyr líka um samræmda viðskiptaskilmála og þess háttar samninga hjá fyrirtækjum og stofnunum í atvinnu- og viðskiptalífi. Ráðherrann ræddi sérstaklega um það sem mjög alvarlegt brot á samkeppnislögum ef slíkt viðgengist. Hefur sérstaklega verið farið ofan í þann þátt sem snýr að samræmdum viðskiptaskilmálum og sambærilegum samningum hjá fyrirtækjum og stofnunum í atvinnu- og viðskiptalífi, hvort það viðgangist hér? Ég spyr um þetta tvennt.

Ráðherra upplýsti einnig að umboðsmenn neytenda hafi beitt sér fyrir því að settar hafi verið reglur hér um fríðindakerfi og ég fagna því sem fram kom í máli ráðherrans að Samkeppnisstofnun muni þá beita sér fyrir því að slíkar reglur verði einnig settar hér.