Áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 13:58:17 (1576)

1997-12-03 13:58:17# 122. lþ. 33.2 fundur 268. mál: #A áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:58]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í svari mínu áðan er það mat Samkeppnisstofnunar að slík fríðindakort geti haft skaðvænleg áhrif á samkeppni og geti hugsanlega leitt til hærra verðs. En ákveðnar forsendur þurfa þá að vera til staðar að mati stofnunarinnar, annars vegar þær að fyrirtækin starfi á sambærilegum markaði og séu í öðru lagi með leiðbeinandi aðgerðir og samræmda skilmála sem muni leiða til þess að verð á vöru og þjónustu sé hærra en ella. Eins og kom fram hefur Samkeppnisstofnun yfirfarið skilmála allra þeirra aðila sem eru með fríkort á þessum markaði, gert athugasemdir við einstaka skilmála og í öllum tilfellum hafa útgefendur þessara fríkorta eða frípunktakorta farið að athugasemdum Samkeppnisstofnunar. Þannig að það er mat stofnunarinnar að traustir skilmálar liggi þarna að baki núna enda er um það að ræða að þeir sem gefið hafa út slík kort starfi ekki á sama markaði eins og hér er. En eins og kom líka fram í svari mínu þá mun Samkeppnisstofnun fylgjast með hver framvindan verður, fylgjast með og hafa eftirlit með þessum fríkortum sem hún hefur heimild til, þ.e. stofnunin, á grundvelli samkeppnislaganna. Ég held að ekki sé hægt að kanna á þessu stigi hvort útgáfa korta eins og þessara hafi leitt til hærra vöruverðs vegna þess að kortin eru gefin út af þeim aðilum sem ekki eru starfandi nákvæmlega á sama markaðnum.