Upplýsingagjöf fyrirtækja á hlutabréfamarkaði

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:08:25 (1580)

1997-12-03 14:08:25# 122. lþ. 33.3 fundur 283. mál: #A upplýsingagjöf fyrirtækja á hlutabréfamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. þau svör sem hann veitti við fyrirspurninni. En ég vil þó taka fram að mér virðist, eftir að hafa virt fyrir mér inntak þeirra umræðna sem orðið hafa um þetta efni, að þar sé heldur ekki á hinn bóginn einsýnt að kröfur sem ég innti eftir í síðari hluta fyrirspurnarinnar verði settar fram og muni skila árangri. Ég tel til að mynda ljóst að slíkar kröfur, gerðar til fyrirtækja sem hafa góð upplýsingakerfi, hafa bókhald allt í góðu lagi, þar sem ákvarðanir eru að öllu jöfnu teknar á grundvelli góðra upplýsinga hafi ekki mikinn kostnaðarauka fyrir slík fyrirtæki að leggja þær upplýsingar fram á verðbréfamarkaði þar sem verslað er með hlutabréf í þeim. Hins vegar tel ég miklu skipta að á þessum markaði nái að ríkja betri stöðugleiki en birst hefur á þessu ári og að þeir sem þar starfa með sparifé sitt og annarra teljist starfa við meira öryggi en nú er. Ég tek undir þau orð ráðherrans að það skipti miklu að öryggi fjárfesta sé með góðu móti. Ég tel að þetta efni muni bæta öryggi þeirra og þess vegna skapa meiri stöðugleika en ríkt hefur á þessum markaði.