Greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:13:08 (1582)

1997-12-03 14:13:08# 122. lþ. 33.4 fundur 280. mál: #A greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHelg
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 350 hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

1. Hverjir verða að greiða af eigin tekjum (eða eftirlaunum) sjúkrahúsvist þegar vistin hefur varað lengur en fjóra mánuði eða það sem á vantar t.d. þegar bætur almannatrygginga, ef einhverjar eru, hafa verið látnar renna til sjúkrahússins?

2. Á hvaða stofnunum gildir þessi regla og hver er meðalupphæð á mánuði á þeim stofnunum sem fá þessar greiðslur?

3. Hvað er sjúklingi ætlað til ráðstöfunar, a. fyrir sjálfan sig, b. fyrir maka sem býr áfram á eigin heimili?

4. Gildir þetta fyrirkomulag fyrir alla aldursflokka?

Hæstv. forseti. Í 34. gr. laga um almannatryggingar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 32. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, þar með talið fæðingarstofnunum, sbr. þó 35. og 39. gr. eða ákvæði sérlaga. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.``

Tilvísun í 32., 35. og 39. gr. fjallar um önnur atriði en hér er spurt um og skiptir þar af leiðandi ekki máli. Það sem hér skiptir máli er að öllum Íslendingum skal tryggð sjúkrahúsvist sé hennar þörf að ráði læknis.

Um langt skeið hafa bætur almannatrygginga, þ.e. elli- og örorkulífeyrir, fallið niður þegar samfelld sjúkrahúsvist hefur varað lengur en fjóra mánuði. Aðrar tekjur bótaþegans hafa verið látnar óáreittar. Á almennum dvalarheimilum greiddu menn fyrir vistina af öðrum tekjum, en héldu ákveðnum hluta þeirra eða fengu svokallaða vasapeninga ef engar tekjur voru, og greiddi þá Tryggingastofnun það sem á vantaði vistgjaldið. Færu menn á sjúkradeildir slíkra stofnana héldu menn öðrum tekjum en bótum almannatrygginga þar sem þeir tilheyrðu þá sjúkratryggingunni.

Með lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, varð sú breyting að vistmenn skyldu einnig greiða af öðrum tekjum sínum dvöl á sjúkradeildum, vísast vegna þess að talsvert bar á að umræddar dvalarstofnanir sæktu fast að vistmenn yrðu metnir sem hjúkrunarsjúklingar þar sem greiðslur voru þannig hærri. Voru dæmi um að vistmenn væru á almennri vist en metnir sem sjúklingar án þess að sýnilegt væri að þeir nytu hjúkrunar.

Með reglugerð nr. 47/1990 er sjúklingum yfir 67 ára aldri, sem vistast á langlegudeildum almennra sjúkrahúsa, gert að greiða fyrir dvölina með öðrum tekjum en bótum almannatrygginga, og eru þar með ellilífeyrisþegar orðnir eini hópurinn í landinu sem greiðir fyrir sjúkrahúsvist sína.

Þess vegna hef ég lagt fram þessar fyrirspurnir til að heyra það frá hæstv. ráðherra sjálfum hvort hann telji eðlilega að farið.