Greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:21:40 (1584)

1997-12-03 14:21:40# 122. lþ. 33.4 fundur 280. mál: #A greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:21]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir að koma þessu máli til umræðu í þinginu með þessari fyrirspurn og vil vekja athygli á því að það eru aldraðir sem greiða fyrir vist sína á sjúkrastofnunum og vistheimilum einir Íslendinga. Mig langar til að vekja athygli á því hvað þetta er niðurlægjandi og smánarlegt ástand þeirra sem lenda í því að missa heilsuna og þurfa að dvelja á þessum aldri á sjúkrastofnunum og vistheimilum. Greiðslur til þeirra eru einnig tekjutengdar, bæði almannatryggingabæturnar og sömuleiðis vasapeningarnir sem fólki er boðið upp á. Og ég nefni dæmi: Aldraður sjúklingur sem var rithöfundur fær lesna eftir sig sögu í útvarpið. Greitt er fyrir það síðari hluta árs. Næsta ár á eftir, eftir að skattframtalið er komið fram, þá er farið að skerða annaðhvort vasapeningana eða rukkun kemur til hjúkrunarheimilisins þar sem verður að endurgreiða (Forseti hringir.) hluta af þessari greiðslu. Næstum því ári síðar skerðast þessar smánarbætur, ef ég nefni t.d. vasapeningana sem eru rúmlega 11 þús. kr., umfram 3 þús. kr. (Forseti hringir.) um 65%, 65 kr. af hverjum 100 kr. eru teknar til baka. Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur ekki til að taka á hinum óréttlátu jaðarsköttum á þennan hóp?