Greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:23:28 (1585)

1997-12-03 14:23:28# 122. lþ. 33.4 fundur 280. mál: #A greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það eru mjög mikilvægar upplýsingar sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur kallað eftir og mjög mikilvægt að við förum ofan í hvað þetta þýðir. Ég vildi óska að þingmaðurinn hefði líka spurt um hvaða dæmi væru um hæstu greiðslur einstaklings vegna þess að sláandi er að sjá meðaltöl frá 20 þús. kr. og upp í 30--40 þús. Ég hef nefnilega heyrt dæmi upp í allt að 100 þús. kr. í greiðslur á mánuði á slíkri stofnun og það er mjög alvarlegt.

Að öðru leyti vil ég líka nefna að þingflokkur jafnaðarmanna hefur lagt fram till. til þál. um að bæta réttarstöðu íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum, sólarhringsstofnunum og vistheimilum einmitt til að láta gera greinarmun á eðlilegum framfærslukostnaði einstaklings sem hver og einn ber ábyrgð á og þjónustu og umönnun sem viðkomandi þarf á að halda vegna líkamlegs eða andlegs ástands út frá því sjónarmiði að tekjur eru teknar og viðkomandi skilinn eftir með vasapening sem sviptir fólk sjálfstæði og sjálfsvirðingu.