Uppsagnir sérfræðilækna

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:39:36 (1591)

1997-12-03 14:39:36# 122. lþ. 33.5 fundur 295. mál: #A uppsagnir sérfræðilækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er með öllu óþolandi hversu mjög hefur dregist á langinn að leysa deilu Tryggingastofnunar og sérfræðinganna. Hæstv. ráðherra kemur hingað og segir núna að hún vonist til þess að senn verði lausn í augsýn. Hvað hefur hún sagt það oft? Hún hefur aftur og aftur komið hingað og sagt að nú sé líklegt að það sé að bresta á samningur.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði líka að hún deildi áhyggjum hv. fyrirspyrjanda út af þeim sjúklingum sem þurfa, eins og hún sagði, að greiða núna fullan sérfræðikostnað. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hún þá engar áhyggjur af þeim sem komast ekki einu sinni til sérfræðinganna vegna þess að að er til fólk sem hefur ekki peninga til þess að greiða þetta? Barnmargar fjölskyldur, fátækt fólk á Íslandi hefur ekki efni á að borga það gjald sem sérfræðingarnir setja upp og þess vegna er það að gerast núna í fyrsta skipti að það er að koma vísir að stéttskiptri heilbrigðisþjónustu í landinu þar sem þeir sem hafa efni á geta farið og keypt sér þjónustu sérfræðinga en fátækt fólk getur það ekki. Hingað til hefur ríkt sátt um það með öllum stjórnmálaflokkum að við viljum ekki svoleiðis heilbrigðiskerfi. Þetta er ekki það Ísland sem við viljum í dag og ég er sannfærður um að þetta er heldur ekki það Ísland sem hæstv. ráðherra vill en óafvitandi er það að skapast undir hennar stjórn.