Breytingar á skattalögum

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:46:30 (1595)

1997-12-03 14:46:30# 122. lþ. 33.6 fundur 301. mál: #A breytingar á skattalögum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Í umræðum síðustu missiri virðist skilningur á gildi rannsókna og mennta fara vaxandi a.m.k. í orði. Að baki þeim skilningi virðist liggja sú sýn að framfarir í efnahagslífi og í mannlífi öllu verði varla nema menntastig þjóðarinnar hækki með auknum rannsóknum og endurmenntun. Þær eru uppspretta nýjunga og framfara. Nú liggur hins vegar fyrir að framlög til rannsókna hérlendis eru með því lægsta sem þekkist innan ríkja OECD, einkum hvað varðar framlög atvinnulífsins til rannsókna og endurmenntunar. Þar skipum við okkur, herra forseti, á gamalkunnan bekk með þjóðum eins og Mexíkó, Grikklandi, Tyrklandi og Portúgal. Þetta eru tvímælalaust þau ríki sem almennt eru talin standa á brauðfótum hvað varðar framfarir og efnahagslíf. Á hinn bóginn má benda á ríki á borð við Bandaríki Norður-Ameríku, Þýskaland, Japan og Norðurlönd þar sem framlög fyrirtækja á hinum almenna vinnumarkaði eru til muna hærri en nemur framlögum hins opinbera til rannsókna og endurmenntunar. Þarna er vísbending um að á okkur halli og ekki sé mikil von um stórstígar framfarir á Íslandi meðan ekki verður úr bætt. Það er væntanlega af þeim sökum, herra forseti, sem Rannsóknarráð Íslands eða Rannís sendi ráðherrum menntamála og fjármála bréf, dagsett 9. júlí sl., með drögum að frv. um breytingar á skattalögum, breytingum sem fela í sér hvatningu fyrir fyrirtækin í landinu til að leggja fé til rannsókna og endurmenntunar. Drögum þessum og bréfi fylgir ítarleg greinargerð með samanburði við önnur ríki.

Í þessari greinargerð kemur m.a. fram að með því að veita fyrirtækjum aukalegt álag til skattafrádráttar á kostnað vegna rannsókna og endurmenntunar geti það orðið hvati til að leggja fé í þessa mikilvægu þætti nýsköpunar. Þetta er nauðsynlegt ekki bara vegna framfara heldur og vegna samkeppnisstöðu okkar gagnvart helstu nágranna- og samkeppnisríkjum. Þetta er með öðrum orðum eitt mesta hagsmunamál fyrir framfarir í efnahagslífi okkar.

Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann hyggist bregðast við þessu bréfi og hvort hann muni leggja fram frv. um breytingar á skattalögum vegna rannsókna, þróunarstarfs og starfsmenntunar í fyrirtækjum eins og Rannís leggur til í umræddu bréfi.