Breytingar á skattalögum

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:55:13 (1597)

1997-12-03 14:55:13# 122. lþ. 33.6 fundur 301. mál: #A breytingar á skattalögum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir skýr svör. Í fyrsta lagi hlýt ég að taka undir með hæstv. ráðherra að lækkun skatta almennt til einstaklinga og fyrirtækja sé meginregla og meginmarkmið. Hins vegar kann okkur að greina á um það. Ég tel að það eitt og sér sé ekki nægjanlegt eins og dæmin sanna í þeirri ágætu greinargerð sem fylgir umræddu bréfi frá Rannís til hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra velti því réttilega upp að mörkin á milli þess hvað eru rannsóknir og hvað er þróunarstarf kunni að vera óljós. Hins vegar kemur fram í umræddri greinargerð frá Rannís að það telur sig sjálft geta haft eftirlit með því enda er það hlutverk Rannís að greina og skilgreina hvað er rannsóknarverkefni, hvað er þróunarstarf og þar fram eftir götunum, og er líklega enginn betur til þess fallinn en einmitt Rannís. Ég held að vert sé að huga að því og nú hlýtur hæstv. fjmrh. ávallt að hugsa um ríkiskassann, það er hans hlutverk, en við verðum sífellt að líta á það að þó að einhver skammtímakostnaður kunni að hljótast af skattafslætti vegna rannsókna þá ber að líta á það sem fjárfestingu sem til lengri tíma skilar sér jafnvel margfalt inn í ríkissjóð.

Ég ítreka stöðu okkar gagnvart öðrum þjóðum. Framlag atvinnulífsins til rannsókna er hér með því lægsta sem þekkist innan OECD og þess vegna er brýnt að grípa til aðgerða. Rannís bendir á mjög hentuga leið sem ég tek undir. Ég bendi einnig á að hér er ekki einungis um skoðun Rannís að ræða. Undir sjónarmið þeirra taka bæði ASÍ og VSÍ. Með öðrum orðum vinnumarkaðurinn sjálfur og Rannís hafa lagt fram ágæta stefnu. Nú vantar hina pólitísku ákvörðun og vil ég brýna hæstv. ráðherra að bregðast vel við.