Breytingar á skattalögum

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:57:34 (1598)

1997-12-03 14:57:34# 122. lþ. 33.6 fundur 301. mál: #A breytingar á skattalögum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil enn á ný þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég er sammála honum um að nauðsynlegt er fyrir okkur að örva rannsóknir og þróunarstarfsemi í fyrirtækjum. Það kemur mér ekki á óvart þegar minnst er á það að VSÍ og ASÍ hafi stutt hugmyndina einfaldlega vegna þess að þannig var farið að að Rannís-menn fóru til þessara aðila, lögðu hugmyndina fyrir og leyfðu þeim síðan að bæta við hugmyndina þannig að í pakkanum er ekki eingöngu verið að tala um það sem hv. þm. nefndi heldur er líka gert ráð fyrir því að eins sé farið með starfsmenntun hjá fyrirtækinu, hvað svo sem starfsmenntun er. Ég hef nú reynslu af því sem viðsemjandi opinberra starfsmanna að horfa á það hvað menn kalla starfsmenntun. Það er, held ég, ekki alltaf alveg nákvæmlega starfsmenntun. Og síðan til viðbótar að líka eigi að vera hægt draga frá með sama hætti öflun einkaleyfis og hönnunarverndar. Þetta segir mér einungis eitt þ.e. að allir eru tilbúnir til að gera út á skattkerfið og fá frádrátt og segja að það muni örva tiltekna starfsemi. Þá svarar ríkið venjulega þannig á móti: Við þurfum að fá meiri tekjur og einu tekjurnar sem við getum fengið er að hækka tekjurnar af viðkomandi aðilum á móti, þ.e. hækka skatthlutföllin. Það verður aftur til þess að menn munu freista þess að reyna að ná sem allra mestu út úr skattkerfinu hinum megin frá --- hlutföllin hækka og frádráttum fjölgar. Það var af þessari ástæðu fyrst og fremst sem á sínum tíma var gjörbreytt um kerfi og sagt: Hættum þessum frádráttarleiðum, förum frekar í það að lækka hlutföllin. Og sú stefna er enn við lýði. Það þýðir hins vegar ekki að hverfa eigi frá því að hugsa um þetta. Ég vek athygli á því að nýjar hugmyndir hjá OECD eru þær að taka þennan óáþreifanlega kostnað, intangible investment, eins og þeir kalla svo, og afskrifa hann hugsanlega eins og steinsteypuna því í nútímaþjóðfélagi leggja fyrirtækin miklu meira upp úr öðruvísi eignum, t.d. í mannauði, heldur en nokkurn tímann upp úr steinsteypu og eignum sem Íslendingar (Forseti hringir.) þekkja einar sem eignir. Um það getum við verið sammála að það sé mál sem við þurfum að taka á og leysa, en ekki, a.m.k. um sinn, með skattafslætti sem þarna er lagt til.