Skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 10:32:51 (1605)

1997-12-04 10:32:51# 122. lþ. 35.1 fundur 108#B skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra# (munnl. skýrsla), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[10:32]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fyrst af öllu þakka ég fyrir að fá tækifæri til þess að kynna skýrslu Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra. Ég fékk ósk frá Öryrkjabandalaginu um að kynna skýrsluna á alþjóðadegi fatlaðra sem var í gær. Því miður var ekki hægt að koma því við í dagskrá þingsins í gær en ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til þess að fara nokkrum orðum um skýrsluna og vekja athygli hv. þingmanna á þessu merkilega málefni.

Skýrslan eða þessar grundvallarreglur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent út til leiðbeiningar fyrir aðildarríkin eru í þremur köflum og er skipt í 22 reglur. Fyrsta reglan er sú að vekja athygli á málefninu. Önnur reglan fjallar um læknaþjónustu og þar er aðildarríkjunum skylt að tryggja fötluðum góða læknaþjónustu. Ástæða til að nefna það hér hvernig staðan er hjá okkur á Íslandi í að uppfylla reglurnar. Við höfum sett á stofn greiningarstöðina. Þar fer fram mjög merkileg starfsemi og þverfagleg, reynt að greina sem allra fyrst ef börnum er áfátt og ég held að þar sé mjög vel unnið og stöðugt verið að bæta við þá starfsemi, nú síðast varðandi einhverfa þar sem fenginn hefur verið sérfræðingur að því málefni. Síðan eigum við sem betur fer góðar heilsugæslustöðvar og þær eiga að sinna frumgreiningunni.

Þriðja reglan fjallar um endurhæfingu og fjallar um að aðildarríkin hafa skyldu til að tryggja að í boði sé endurhæfingarþjónusta handa fötluðum svo þeir megi ná sem mestu sjálfstæði og bestu athafnastigi. Við stöndum sæmilega hvað varðar læknisfræðilega endurhæfingu. Við höfum Grensásdeild og Reykjalund og á stofnunum um heilbrigðisþjónustu fer líka fram marktæk endurhæfing og samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra er því málefni einnig sinnt.

Fjórða reglan er um stoðþjónustu og að aðildarríkin ættu að tryggja þróun og framboð stoðþjónustu með tilliti til hjálpartækja fyrir fatlaða eða til að hjálpa þeim að auka sjálfstæði sitt í daglegu lífi og ná fram rétti sínum. Hér er einnig staðið vel að verki. Við höfum Hjálpartækjabankann og Tryggingastofnun tekur mikinn þátt í kostnaði þar af og hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins á Smiðjuvegi. Þá vil ég líka geta um stórmerkilega framleiðslu Össurar hf. á gervilimum sem hefur vakið heimsathygli og var merkilegt framlag okkar til hjálparstarfs í ríkjum fyrrum Júgóslavíu.

Fimmta reglan er um aðgengi. Aðildarríkin skyldu gera sér grein fyrir almennu mikilvægi aðgengis hvað snertir jöfnun tækifæra á öllum sviðum samfélagsins. Aðildarríkin skyldu a) stofna til framkvæmdaáætlunar í því skyni er geri umhverfið aðgengilegt fyrir fólk með fötlun af ýmsu tagi og b) gera ráðstafanir til að veita aðgang að upplýsingum.

Það fer svo þegar maður talar um aðgengismál í þessu húsi að maður hlýtur að fyrirverða sig því að aðgengi er ekki viðunandi hér en við því er ekki gott að gera eins og menn vita. Við höfum gert samning við sveitarfélögin um aðgengismál fatlaðra og þessi samningur var undirritaður í febrúar á þessu ári. Síðan höfum við ný lög um bygginga- og skipulagsmál sem taka gildi 1. jan. nk. Bæði þessi samningur og eins lögin eiga að vera spor fram á við í þessu efni. Við höfum einnig ferðaþjónustu fatlaðra hjá sveitarfélögunum.

Síðan er um aðgengi að upplýsingum. Við höfum Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og við höfum túlkaþjónustu. Sjónvarpið birtir fréttir á táknmáli og Tryggingastofnun styrkir textasíma.

Sjötta reglan fjallar um menntun og að aðildarríkin skuli hafa í heiðri þá meginreglu að fötluð börn njóti jafnréttis hvað snertir nám í grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og almennum skólum. Þau skyldu tryggja að menntun fatlaðra sé óaðskiljanlegur hluti menntakerfisins. Hér eiga öll börn lögbundinn rétt á menntun og við höfum fylgt þeirri stefnu að hafa samskipan í almenna skóla og það er með því mesta sem þekkist. Við höfum náð þegar best lætur mjög góðum árangri. Ég vil nefna það að Ísland fékk fyrstu verðlaun frá Evrópusambandinu í sambandi við Helíos-samstarfsáætlunina fyrir blöndun fatlaðra nemenda í almennum skóla. Það var Lundarskóli á Akureyri sem fékk þessa viðurkenningu. Það voru gullverðlaun. Silfurverðlaun, fyrir aðbúnað heyrnarlausra, hlaut Menntaskólinn við Hamrahlíð.

Sjöunda reglan fjallar um atvinnu. Aðildarríkin skyldu viðurkenna þá meginreglu að gera verður fötluðum kleift að njóta mannréttinda, einkum á sviði atvinnumála. Jafnframt í borgum, bæjum og til sveita skulu þeir njóta jafnréttis til arðbærs og launaðs starfs á vinnumarkaði.

Við höfum nýlega sett lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Svæðisvinnumiðlunum, sem er verið að koma upp, er skylt að sinna þessu verkefni og fatlaðir eiga þar sama rétt og aðrir. Framkvæmdasjóður fatlaðra leggur einnig fé til aðgengismála á vinnustöðum og nokkrir atvinnurekendur hafa sýnt mjög lofsvert framtak í að hafa fatlaða í vinnu. Í landinu eru 15 verndaðir vinnustaðir sem njóta framlaga úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og starfsþjálfun fatlaðra í Hátúni 10d er mjög merkileg starfsemi.

Áttunda reglan er um tekjutryggingu og almannatryggingar. Aðildarríkin bera ábyrgð á að sjá fötluðum fyrir almannatryggingum og tekjutryggingu. Ég hygg að almannatryggingalöggjöfin hér sé nokkuð góð og skapi nauðsynlegt öryggisnet. Í bandormi, sem verður væntanlega ræddur á allra næstu dögum, er ákvæði um styrkta tengingu við launaþróun og verðlagsþróun í landinu.

Níunda reglan er um fjölskyldulíf og mannlega reisn. Aðildarríkin skulu stuðla að því að fötluðum sé kleift að taka virkan þátt í fjölskyldulífi, þau skulu tryggja réttindi fatlaðra til mannlegrar reisnar og tryggja að fötlun sé ekki mismunað með lögum hvað varðar kynferðissambönd, hjónaband og barneignir. Það má geta þess að við höfum mjög skýr ákvæði í íslensku stjórnarskránni og við höfum líka lög um málefni fatlaðra og fjölskylduþjónustu.

Tíunda reglan fjallar um menningu. Aðildarríkin tryggja að fötluðum sé gert kleift að vera hluti af og taka þátt í menningarviðburðum á jafnréttisgrundvelli. Við veitum liðveislu til þess að fatlaðir geti notið menningar og afþreyingar. Ég vil líka nefna stórmerkilega starfsemi sem fer fram í Ásgarði þar sem fatlaðir sinna bæði menningarstarfi og handverki, listiðnaði. Eins hefur leikhópur fatlaðra, sem heitir Perlan, hlotið mikla viðurkenningu.

Ellefta reglan er um tómstundir og íþróttir. Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að tryggja að fatlaðir hafi sömu tækifæri og aðrir hvað varðar skemmtanir og íþróttir. Íþróttasamband fatlaðra hefur starfað af miklum þrótti og árangur fatlaðra Íslendinga á Ólympíuleikum fatlaðra hefur vakið heimsathygli.

Tólfta reglan fjallar um trúariðkanir. Það málefni er á verksviði kirkjunnar. Ég vil geta þess hað heyrnarlausir hafa sérstakan prest.

Þrettánda reglan fjallar um upplýsingar og rannsóknir. Það stendur yfir mjög ítarleg könnun á aðstöðu fatlaðra í úttektarhópi sem er að störfum á vegum félmrn. og ég vænti þess að niðurstaða liggi fyrir um árangur. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Nú er tíminn búinn. Það er að vísu eftir að nefna nokkrar reglur, ég var bara kominn að fjórtándu reglu, en ég verð að hlíta tímamörkum og e.t.v. gefst mér tækifæri í lokaorðum til þess að fara yfir það sem eftir er.