Skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:14:15 (1611)

1997-12-04 11:14:15# 122. lþ. 35.1 fundur 108#B skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra# (munnl. skýrsla), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:14]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það var mér mjög ljúft að standa fyrir henni. Þetta er þarft málefni að ræða og ástæða til að ræða það. Staðan hér er tiltölulega góð í alþjóðlegu samhengi og það mun sannast enn betur þegar Helíos-skýrslan, sem kemur út í desember, kemur á borð okkar. Það er að vísu margt sem við getum bætt og við eigum að hjálpast að við að gera það því að eins og hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, sagði, þá erum við öll svo afskaplega góð.

[11:15]

Ég fagna því að þó þessari umræðu ljúki hér í þingsölum í dag þá er henni ekki lokið í þjóðfélaginu. Á næstu dögum mun verða umræða úti í þjóðfélaginu um þessi efni. Hingað er að koma Bengt Lindqvist sem sem hefur yfirumsjón með þessu verkefni hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég fagna því að fá að hitta hann og mun snæða með honum kvöldverð á mánudaginn kemur. Vegna komu hans verður hér örugglega áframhaldandi umræða.

Hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, fór hér mikinn að vanda og hafði nóga peninga eins og venjulega. Ég vil bera til baka það sem hann sagði um kjaramál fatlaðra. Í bandormsfrv., ef að lögum verður, er tvöföld trygging., 9. gr. í bandorminum hljóðar svona:

,,Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.`` Það er að segja ef launaþróunin fylgir ekki þróun neysluverðs þá er trygging fyrir því að bæturnar hækki samkvæmt hærri mælikvarðanum.

Hv. þm. var með nokkrar úrtölur vegna yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna sem ákveðið er með lögum að verði 1. janúar 1999. Sveitarfélögin óskuðu eftir að fá þetta málefni. Samtök fatlaðra mæltu með því að málið yrði fært. Það er ekki að frumkvæði ríkisins sem við erum að þessu. Ég viðurkenni það að málefni fatlaðra fara betur hjá sveitarfélögunum og ég vitna til þeirrar reynslu sem þegar er fengin. Á Norðurlandi eystra í Vestmannaeyjum og Hornafirði eru málefni fatlaðra alfarið komin til sveitarfélaganna. Á öllum þessum stöðum held ég að það sé enginn vafi um að málefnunum sé betur sinnt þar en hjá ríkinu. Varðandi fjármagn til málefna fatlaðra í fjárlögum þá er 7% raunaukning til málaflokksins í fjárlagafrv. sem nú er til afgreiðslu hér á þinginu.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég átti eftir að minnast á nokkrar af reglunum. Það er um löggjöfina. Við erum að samþætta lögin um málefni fatlaðra og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og ég held að það sé spor í rétta átt og í anda þess sem menn vilja --- að fatlaðir séu meðhöndlaðir með sama hætti og aðrir borgarar. (Forseti hringir.) Ég átti eftir að minnast á efnahagsstefnuna, samtök fatlaðra og fjalla um þjálfun starfsfólks. Ég nefni lottópeningana sem Öryrkjabandalagið fær og vil nefna það hér að félmrn. hefur staðið fyrir 14 námskeiðum til þjálfunar starfsfólks.

Því miður gefst mér ekki lengri tími en ég þakka enn og aftur fyrir þessa umræðu, herra forseti.