Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:41:20 (1614)

1997-12-04 11:41:20# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta frv. er stutt, það er tvær línur:

1. gr. Sveitarfélögin Kjalarneshreppur í Kjósarsýslu og Reykjavíkurborg skulu sameinuð.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og hafa ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar.

Greinargerðin er líka stutt. Ég ætla að nefna þrjár setningar úr greinargerðinni.

,,Kjalarneshreppur er í Kjósarsýslu og skv. 31. stjórnarskrárinnar er Kjósarsýsla í Reykjaneskjördæmi ...

Skipting kjördæma er eins og áður segir ákveðin í 31. gr. stjórnarskrárinnar og er þar um tiltekna landfræðilega afmörkun að ræða ... Því er talið rétt að taka skýrt fram að frumvarp þetta, ef það verður að lögum, hafi ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar.``

Þetta er mjög rökrétt framsetning þegar við lesum þessar þrjár setningar eins og þær eru settar fram. En það sem er rökrétt getur virkað mjög undarlegt og þetta frv. virkar þannig á mig. Því get ég, virðulegi forseti, tekið undir með 1. þm. Reykn. sem setti fram efasendir við framsetningu frv. og vangaveltur hans um þessa sérkennilegu stöðu, nema hvað varðar stækkun kjördæma. Þar er ég á annarri skoðun.

Það má velta fyrir sér þeirri stöðu sem er komin upp í samanburði við það sem áður hefur gerst. Þarf ég ekki að orðlengja um þau tilfelli sem Ólafur G. Einarsson ræddi. En mig langar að draga fram það sem gerðist á sínum tíma í heimabæ mínum, Kópavogi.

Þegar Reykjavíkurborg skipulagði Seljahverfið var það óvart skipulagt inn í Kópavog. Þegar skipulagið lá fyrir, ég held að það hafi verið um það bil sem átti að fara að úthluta lóðum, áttuðu menn sig á því að 33--34 hektarar af þessu skipulagssvæði voru í Kópavogi. Nú voru góð ráð dýr og auðvitað leystu þessi sveitarfélög þennan vanda sín í milli. Hann var leystur þannig að Reykjavík fékk þessa 33--34 hektara og Kópavogur fékk annað land af svipaðri stærð þar sem nú er svokallað Smiðjuhverfi. Að vísu er það ekki með mjög mörgum íbúum vegna þess að það er atvinnusvæði í Kópavogi. Þetta þýðir að þeir íbúar í hluta Seljahverfis sem búa á þessum 33--34 hekturum, hefðu ef stækkun sveitarfélagsins Reykjavík hefði verið skilgreind þá á sama hátt og þetta frv. ætlar nú að skilgreina stöðuna Reykjavík/Kjalarnes, þar með átt að tilheyra Reykjanesi áfram og þessi hluti Seljahverfis ætti að tilheyra Reykjanesi. Er þetta ekki rökrétt, virðulegu þingmenn? Ég spyr.

Auðvitað finnst okkur þetta fráleitt og auðvitað var það svo á þeim tím að gengið var frá mörkum og Reykjavík var stækkuð inn í Kópavog og Kópavogur var stækkaður inn í Reykjavík. Gengið var frá mörkum og Reykjavík er Reykjavík og Kópavogur er Kópavogur og Kópavogur er í Reykjaneskjördæmi

[11:45]

Þegar við drögum fram eitthvað sem þegar hefur gerst og er rökrétt fyrir okkur í dag og berum það saman við það sem nú á að gerast þá er það fráleit hugsun að Kjalnesingar verði Reykvíkingar, séu í Reykjaneskjördæmi og kjósi til Alþingis í Reykjanesi en til borgarstjórnar í Reykjavík. Ég á fremur von á því að mönnum muni a.m.k. fljótlega finnast þetta annarleg og óviðunandi hugsun. Það er vegna þess að fólk samsamar sig sínu sveitarfélagi og það vill samsama sig sínu sveitarfélagi á allan hátt. Ég reikna því með að fólk vilji leita til þingmanna sinnar borgar þegar fram líða stundir en ekki nágrannanna. Þetta frv. og vandinn sem félmrh. virðist hafa staðið frammi fyrir segir okkur líka að eins og við stöndum frammi fyrir kjördæmaskipaninni þá er er vandi að bregðast við hverju sinni. Við það má bæta, allavega geri ég það frá eigin brjósti, að kjördæmaskipan er úrelt. Hins vegar er engin samstaða um það, ef kjördæmaskipan yrði breytt, hvað taka skuli við þó að ýmsar hugmyndir hafi verið ræddar, bæði hvað varðar kosningalöggjöf og hugsanlega breytingu á kjördæmaskipan.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna, virðulegi forseti, að þessi vandi mundi ekki vera fyrir hendi ef stefnumál okkar um að gera landið að einu kjördæmi væri komið til framkvæmda. Þá værum við ekki að velta því fyrir okkur í hvaða kjördæmi Kjalarnes lægi og þar með værum við þingmenn allra núverandi kjördæma. Hlutverk flokkanna væri að skipa á sína lista þannig að sátt væri um, setja í trygg sæti einstaklinga miðað við áherslur flokkanna, hvort heldur er miðað við hlutfall landsbyggðar á listunum í samanburði við höfuðborgarsvæðið eða annað sem mér er jafnvel enn þá hugstæðara, jafnan hlut kvenna og karla á listum.

Auðvitað erum við ekki hér til að ræða um kjördæmaskipan og það hvarflar ekki að mér að dvelja við það en ekki er hægt annað en nefna það þegar við stöndum frammi fyrir því að sveitarfélög eru að sameinast um allt land. Vissulega er það mest innan kjördæmanna á hverjum stað. En við hljótum að horfast í augu við að þær breytingar sem eru að verða og þessi meðvitaða hugsun um allt land, líka sveitarstjórnarmannanna, þó þeir hafi oft verið þyngstir í taumi að sameinast um verkefni, að sameinast landfræðilega sem hugsanlega gæti brotið í bága við kjördæmamörk. Þessi hreyfing sem er á sameiningu um allt land mun hitta okkur fyrir fyrr en síðar í fleiri tilfellum en þessu, það er alveg ljóst. Og við þingmenn hljótum að spyrja okkur að því hvað við ætlum að gera og hvernig við eigum að bregaðst við.

Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. mælti fyrir þessu frv. og vísaði í skýrslu Gunnlaugs Claessens, hæstv. félmrh. leiðrétti mig ef ég hef rangt fyrir mér en ég stend í þeirri meiningu að þetta sé hugsanlega skýrsla sem kallað var eftir 1989, að þetta sé sem sagt skýrsla frá fyrri tímum í ráðuneytinu og ekkert um það að segja. En þetta er svo viðkvæmt mál og svo sérstakt að ég mundi telja það mjög eðlilegt að kalla eftir álitum manna. Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að félmn. hljóti að kalla eftir áliti núverandi ríkislögmanns þegar þetta mál kemur til kasta félmn. Núverandi ríkislögmaður þekkir afar vel til, ekki síst vegna áralangrar veru hans í stjórn Sambands sveitarfélaga og í gegnum árin hefur hann komið að gerð sveitarstjórnarlaganna og hann hefur komið að velflestum álitamálum sem á þeim árum hafa komið upp milli sveitarfélaga og milli sveitarfélaga og ríkis. Hann þekkir ákaflega vel þessi mál, ekki síst málefni þessa svæðis. Þess vegna finnst mér það einsýnt að við munum kalla eftir áliti hans sem og annarra. Vegna þess sem á eftir að koma, hlýtur þetta frv. að vera fordæmisgefandi bæði fyrir það hvernig löggjafinn eða ríkisvaldið ætlar að halda á málum þegar sveitarfélög sameinast og mörk kjördæma riðlast þar með og hvernig Alþingi ætlar að taka á málum. Það getur ekki verið að Alþingi ætli að gera eitt í dag og annað á morgun. Þess vegna hvílir það á okkur að reyna að horfa til framtíðar, reyna að gera okkur grein fyrir því að aðstæður eru að breytast og sveitarfélög á hreyfingu fram og til baka, þess vegna yfir kjördæmamörk. Við verðum að sjá það fyrir okkur að ef þetta mál verður að lögum og kjördæmamörkum verður ekki breytt og þar með ákvæði 31. gr. stjórnarskrárinnar, þá hljótum við að vera að segja við sveitarfélög landsins: Elskurnar mínar, sameinist þið og þess vegna yfir kjördæmismörk. En munið það að íbúarnir, þó þeir verði bara 15 eða 20, munu eiga heima í næsta kjördæmi. Þetta er okkar vandi og þetta hljótum við í félmn. að skoða.