Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:57:01 (1619)

1997-12-04 11:57:01# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:57]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að hérna sé komið prýðilegt umræðuefni fyrir okkur að brjóta heilann um og velta fyrir okkur. Vandi okkar stafar aðallega af því að stjórnarskráin er ekki nægilega skýr í þessum málum. Það er vandinn. Það er ekki skýrt samhengi á milli stjórnarskrárákvæða um sveitarfélög og kjördæmi í stjórnarskránni eins og hún er og í stjórnarskránni eru kjördæmin mörkuð eftir lögsagnarumdæmum, þ.e. kaupstöðum og sýslum en ekki eftir sveitarfélögum. Það gerir málið flókið. Ef sveitarfélögin væru talin upp í stjórnarskránni og eitt sveitarfélag mundi ákveða að sameinast öðru, þá hygg ég að við stæðum ekki í þessari umræðu nema við hefðum í stjórnarskránni beinlínis ákvæði um það að kjördæmamörkin væru föst og sveitarfélög, hvort sem væru íbúar eða svæði, yrðu ekki flutt á milli kjördæma nema með stjórnarskrárbreytingu og það er út af fyrir sig hægt að gera.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég sakna þess mjög að ekki skuli vera ljóst hvort við okkur þingmönnum Reykvíkinga blasir að verða þingmenn Kjalarness eða ekki. Ég var farinn að hlakka mikið til þess og ég tel að Reykjavík batni mjög verulega við það að ná þannig tengslum við dreifbýlið eins og þarna er um að ræða og ég fagna því. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst hæstv. félmrh. vera kannski nokkur vorkunn í þessu máli. Það liggur aðeins ein opinber greinargerð fyrir um þetta mál og það er greinargerð ríkislögmanns.

Ríkislögmaður er auðvitað ekki dómari. Hann fjallar um mál, hann gefur út álitsgerð. Þetta er ekki úrskurður. Og ég er ekki viss um það t.d. að núverandi ríkislögmaður mundi fella sama úrskurð eða skrifa sams konar álitsgerð og Gunnlaugur Claessen gerði, en núverandi ríkislögmaður er Jón G. Tómasson eins og menn þekkja, fyrrv. forustumaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Mér finnst að þetta mál sé með þeim hætti að við getum velt því fyrir okkur hvort það er nauðsynlegt að afgreiða alþingiskosningaþátt þessa frv. núna í ágreiningi, eins og málum er háttað. Þó það væri æskilegra að mínu mati, þá er í raun og veru umhugsunarvert hvort ekki þarf að kalla til fleiri aðila en ríkislögmann og ég vil leggja á það áherslu að menn leggist yfir þetta með nákvæmni, mér liggur við að segja smámunasemi, og skoði málin í þaula vegna þess að svona á ekki að þurfa að afgreiða í miklu stríði, sérstaklega ekki á milli viðkomandi byggðarlaga. Mér finnst það ekki hafa góðan svip og þætti skárra ef hægt væri að komast hjá því að þetta mál endaði sem einhverjar deilur milli Reykvíkinga og Reyknesinga. Þá vildi ég frekar ýta málinu til hliðar eða fresta því um sinn og biðja um vandaðri úttektir á því.

[12:00]

Ég vil hins vegar segja út af lokaorðum hæstv. félmrh. að ég get ekki litið þannig á að um væri að ræða bráðabirgðalausn með skírskotun til breytinga á kjördæmaskipuninni. Sú breyting hefur ekki verið samþykkt þannig að ekki er hægt að horfa á þetta nema sem endanlega afgreiðslu að svo miklu leyti sem þetta mál varðar og að svo miklu leyti sem þennan löggjafa varðar sem situr að störfum akkúrat um þessar mundir.

Mér finnst hins vegar að alþingismenn eigi að setja sér það í máli af þessu tagi að vera mjög nákvæmir í því að fylgja stjórnarskránni. Menn eiga að ganga mjög langt í því að fylgja stjórnarskránni. Hvað þetta mál varðar getur verið álitamál hvað það er að fylgja stjórnarskránni, en mér finnst mikilvægt atriði að menn gefi sér í fyrsta lagi að stjórnarskránni skuli fylgja. Það er það sem mér finnst hæstv. félmrh. í raun vera að leggja til, þ.e. að hann, sem hluti af framkvæmdarvaldinu, geti ekki gert neitt annað en fylgt álitsgerð sem byggist fyrst og fremst á hinum stjórnarskrárbundnu forsendum málsins.

Ég vil svo víkja almennt að málinu og segja að miklu gleggri umdæmalöggjöf þyrfti að vera hér til. Í frv. er t.d. ekki tekið á lögsagnarumdæmamálum. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að lögsagnarumdæmamörk séu óbreytt. Þar af leiðandi er ekki hægt að segja annað en að öll þessi mál eru að verða býsna ruglingsleg vegna þess að ekki er tekið á öllum þáttum, þ.e. sveitarfélagamörkum, kjördæmamörkum, lögsagnarumdæmamörkum og í raun og veru öllum mörkum. Og það að nefna tilfærslur á landskikum á milli Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna í samanburði við þetta finnst mér ekki alveg rétt að gera vegna þess að hér er um að ræða sveitarfélag sem hefur tiltekna og aðra stöðu skilgreinda í stjórnarskránni heldur en þegar menn gera samninga um einhvers konar makaskipti á löndum.

Ég man vel eftir því þegar sameiningarumræðan gekk hér yfir fyrir nokkrum árum, þá sögðu íbúar í Árneshreppi á Ströndum: Það er langbest fyrir okkur að sameinast Reykjavík. Í rauninni hefðu þeir getað tekið ákvörðun um að sameinast Reykjavík sem sveitarfélag. En það sjá hins vegar allir að það hefði verið fráleitt að ... (Gripið fram í: Með samþykki Reykvíkinga.) Með samþykki Reykvíkinga væntanlega. En ég tel að það hefði verið fráleitt að slá því um leið föstu að þeir hættu að vera Vestfirðingar þegar kosið yrði til Alþingis.

Spurningin er um það hvort stjórnarskrárgjafinn þarf ekki að velta því fyrir sér hvort þessir hlutir þurfi ekki að vera skýrari. Nú getur þetta alveg verið á hinn veginn. Menn mega ekki bara horfa á þetta þannig að það sé Reykjavík sem geti hugsanlega bætt við sig. Í rauninni gætu önnur umdæmi, önnur kjördæmi, gert það líka. Í sjálfu sér mætti hugsa sér að þessir hlutir væru t.d. þannig, segjum að því varðar Kjósarsýslu, að bæði Kjósin og Kjalarnesið samþykktu að sameinast, segjum Reykjavík, þá stæði í rauninni ekkert eftir af Kjósarsýslu annað en nafnið sem þó er meiningarlaust af því að hún er ekki stjórnsýslueining lengur. Af slíkum vangaveltum sjá menn að þessir hlutir eru miklu flóknari en þeir kunna að virðast í fljótu bragði.

Ég held að það sé rétt hjá mér, út af orðum hæstv. forseta Alþingis áðan, að ekkert hliðstætt dæmi sé til um að reynt hafi á þetta eftir 1959. Ég man alla vega ekki eftir því. Ég man eftir umræðum t.d. í minni sveit vestra að menn hafi verið að velta því fyrir sér að sameinast milli sýsluumdæma en það hefur ekkert gerst í því máli. Menn hafa verið að tala t.d. um stöðu Skógarstrandar á sínum tíma, hvort hún ætti hugsanlega að sameinast Dalabyggð eða Stykkishólmi. Menn hafa verið að velta fyrir sér stöðu ýmissa annarra byggðarlaga og hafa verið að tala um stöðu Flateyjar á Breiðafirði og fleira og fleira. En ég held að engin svona ákvörðun í sveitarfélögum hafi orðið til, ef ég man rétt. Þar af leiðandi er þetta nýtt vandamál sem kemur upp og er í sjálfu sér eðlilegt að menn velti því mjög rækilega fyrir sér.

Ég veit ekki betur en að borgarlögmaður sé andvígur því sjónarmiði sem fram kemur hjá hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórn. Mér skilst að það sé svo. Og sjálfsagt er að skoða sjónarmið hans og allra annarra í þessu máli, Reykjavíkurborgar og allra annarra. En mér finnst aðalatriðið vera það að við reynum að fara í saumana á þessu máli í smáatriðum. Mér finnst ekki vera tilefni til að kjósa sérnefnd í málið sem væri þó umhugsunarvert vegna þess hversu málið er flókið og tekur yfir miklu víðara svið en venjulegt sveitarstjórnarmál, ef svo mætti segja. Ég legg á það áherslu að sem flestir verði kallaðir til.

Ég get ekki litið þannig á að ákvæði 2. gr. feli í sér stjórnarskrárbrot. Mér fannst hæstv. forseti Alþingis láta aðeins að því liggja áðan að ákvæði 2. gr. væri alveg á jaðrinum að henta miðað við stjórnarskrána eins og hún er. Þá hefði þetta náttúrlega átt að vera frv. til laga um breytingu á stjórnarskipunarlögum en ekki um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar. Ég held að þetta mál sé dálítið á gráu svæði en fyrir mitt leyti, ef ég ætti að segja eitthvað um málið á þessari stundu, þá mundi ég komast að mjög svipaðri niðurstöðu og ríkislögmaður, þó ég verði að segja að mér gest ekki að öllu leyti að því hvernig fjallað er um málið í greinargerð hans í einstökum atriðum og ég get tekið undir þær athugasemdir við þá greinargerð sem fram komu hjá hæstv. forseta Alþingis.