Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:19:43 (1623)

1997-12-04 12:19:43# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:19]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Oft verða lítil mál uppspretta að nokkuð löngum og drjúgum umræðum og svo ætlar að verða að þessu sinni að eitt minnsta frv. eða stysta frv. á þessu haustþingi kallar fram þó nokkuð miklar umræður, a.m.k. miðað við það sem við höfum átt að venjast á þessu hausti en ekki verður sagt um þinghaldið að það hafi verið mjög kröftugt enn sem komið er.

Mér finnst nú aðalatriðið við afgreiðslu þessa máls að Alþingi afgreiði það í góðu samræmi við málið eins og það var lagt upp fyrir íbúa fyrir kosningar um sameiningu sveitarfélaga og málin lágu þannig fyrir og voru útskýrð á þann veg að þessi tvö sveitarfélög gætu sameinast vandræðalaust. Þyrfti þó lagasetningu til að staðfesta sameininguna en það yrði eftir sem áður í tveimur kjördæmum. Þannig var málið kynnt og fyrir því voru álitsgerðir sem stuðst var við þegar þetta álit var mótað. Alþingi á að mínu viti því að hafa eins og kostur er hliðsjón af þessu uppleggi málsins. Auðvitað verður að athuga málið í nefnd og gæta að því hvort það samræmist stjórnarskrá en að því gefnu að svo sé, þá tel ég ekki ástæðu til annars en málið verði afgreitt eins og það lá fyrir og var kynnt fyrir þessar kosningar.

Spurningin um það hvort þetta samræmist stjórnarskrá eða öllu heldur hvort það sé andstætt stjórnarskránni að Reykjavík sé í tveimur kjördæmum er athyglisverð og er rétt að menn skoði það vandlega. Þessi spurning getur komið upp síðar og í öðrum tilvikum sem stinga meira í augu en þetta. Þá er nauðsynlegt að sem fyrst sé athugað hér á Alþingi hvernig Alþingi líti á slíka sameiningu þannig að hér á Alþingi komi viðhorf manna fram tímanlega, áður en dregur til þeirra tíðinda að sveitarfélög í óskyldum kjördæmum sameinist eins og kann að gerast í náinni framtíð. Það er a.m.k. ekki mjög fjarlægur draumur að slík tilvik verði fleiri en orðið er.

Ég hef svo sem ekki eitt svar við því hvort þetta er andstætt stjórnarskránni eða ekki. Ég tek eftir því að stjórnarskráin fjallar lítið um sveitarfélög og þegar fjallað er um lýðveldið, þ.e. þann hluta hugtaksins sem lýtur að ríkinu, er hugtakið sveitarfélag ekki mikið undirliggjandi. Það bendir til þess að þarna sé um tvö óskyld hugtök að ræða og af því leiðir að ekkert er sjálfgefið eða ekkert samhengi milli þessara tveggja stjórnsýslustiga, annars vegar ríkisins eða lýðveldisins og hins vegar sveitarfélaganna. Það þýðir t.d. að ekkert þarf að vera óeðlilegt við það að menn kjósi á einum stað í einhverju ákveðnu sveitarfélagi sem er þá innan tiltekins kjördæmis en síðan þegar kosið er til alþingiskosninga eigi menn kosningarrétt í öðru kjördæmi af því einfaldlega að sveitarfélag er ekki hugtak sem skiptir sköpum í þessu.

Það má líka benda á það að stjórnarskráin setur ekkert skilyrði í þá veru að sveitarfélag skuli vera allt í sama kjördæminu. Það er ekki einu sinni neitt um það að sveitarfélag þurfi að verða eitt kjördæmi. Þvert á móti má álykta út frá því sem stendur í stjórnarskránni að það sé fullkomlega eðlilegt að sveitarfélagi sé skipt upp í fleiri en eitt kjördæmi. Það væri að mínu mati ekkert andstætt stjórnarskránni þótt eitt og sama sveitarfélagið væri í fleiri en einu kjördæmi þannig að sambandið milli sveitarfélags og kjördæmis er ekki um að ræða að mínu viti. Ég sé ekki að það sé atriði sem menn ættu að leggja til grundvallar við mat á málinu.

Það sem mér finnst þó fremur styðja það sjónarmið að Reykjavík ætti að vera í einu kjördæmi er það ákvæði sem fjallar um skiptingu landsins í kjördæmi. Það gengur út frá skiptingu ríkisvaldsins. Það gengur ekki út frá sveitarfélagaskipaninni. Þegar upp eru talin þau nöfn sem tilheyra hverju og einu kjördæmi er í raun ekki verið að telja upp nöfn á sveitarfélögum. Það er verið að telja upp nöfn á sýslum annars vegar og kaupstöðum hins vegar en hvort tveggja voru stjórnsýslueiningar ríkisvaldsins. Ef við förum t.d. yfir Reykjaneskjördæmi þá var það Gullbringusýsla, Grindavíkurkaupstaður, Keflavíkurkaupstaður o.s.frv. Sýslumenn eða bæjarfógetar voru yfir sýslum og kaupstöðum þannig að ég skil þessa upptalningu sem upptalningu á ríkisvaldinu. Það er verið að skipta því en ekki upptalningu eftir sveitarfélögum. Þetta finnst mér þó fremur styðja að Reykjavík ætti að vera eitt lögregluumdæmi. Mér finnst að menn gætu fært það fram sem rök fyrir því sjónarmiði að Reykjavík ætti að vera innan sama kjördæmis.

Síðan vil ég segja aðeins um málið til viðbótar að ég er á þeirri skoðun, svo að ég undirstriki það, að ekkert andmælir því að sveitarfélögum sé skipt upp milli kjördæma og jafnvel að kjördæmi séu hluti af sveitarfélögunum. Það er einfaldlega ákvörðunaratriði Alþingis hvernig menn skipa þessum málum gagnvart lýðveldinu Íslandi. Mér finnst hugtakið sveitarfélag vera óskylt því máli og menn þurfi ekki og eigi ekki að hugsa út frá því þegar þeir skipa þessum málum. Vandamálið sem menn eru hins vegar að vitna til er að sumu leyti tilbúið út af öðru máli, út af áhuga einstakra ráðherra á sínum tíma á því að ná fram sameiningu sveitarfélaga, þá var gengið svo langt að túlka lög um sveitarfélög á þann veg að sveitarfélög þyrftu ekki að vera samanhangandi eining og vitna til þess að hvergi í sveitarstjórnarlögum væri tekið fram að svo mætti ekki vera. Sú lögskýring var notuð til að samþykkja sameiningu sveitarfélaga sem voru landfræðilega aðskilin eins og t.d. Borgarbyggð uppi í Borgarfirði og fleiri má nefna. Eitt dæmið er Reykjavík. (Gripið fram í: Vesturbyggð.) Og Vesturbyggð er annað dæmi. Mér fannst alltaf vera mjög hæpið að fara inn á þá braut að túlka sveitarstjórnarlögin með þessum hætti því að það mundi leiða til vandræðaástands og skýring mín á þessum vangaveltum er að menn jafna þarna á milli og segja: Úr því að sveitarfélög geta verið sundurlaus getur þetta haft áhrif á það hvernig kjördæmin eru skipuð og þar af leiðandi getur Reykjavík verið í tveimur kjördæmum. Allur þessi ferill og þetta mikla kapp sem hljóp í ákveðna ráðherra fyrir nokkrum árum til þess að sýna einhvern árangur af miklu streði hefur orðið til þess að gera málið hálfvandræðalegt. Ef menn hefðu ekki farið inn á þessa braut að samþykkja sameiningu sundurlausra sveitarfélaga væri þetta frv. ekki hér á borðum því að það hefði einfaldlega aldrei verið samþykkt að þessi sveitarfélög mættu sameinast.

Mér finnst raunar fráleitt að heimila sameiningu sveitarfélaga sem liggja ekki saman. Við megum ekki leiðast út í gömlu þrætuna sem við þekkjum frá þjóðveldisöld þegar menn höfðu goðorðin gömlu og goðorðsmenn kepptust við að kalla til og ná til sín nýjum þingmönnum með löndum þeirra og síðan lágu goðorðin út og suður. Einn og sami goðorðsmaðurinn gat átt ítök í ólíkum landsfjórðungum. Þetta endaði allt með upplausn og skelfingu. Við heyrðum það á ræðum manna hér áðan að þeir sem tóku til máls og hafa tekið til máls fram til þessa eru þingmenn þeirra kjördæma sem í hlut eiga, Reykjavíkur og Reykjaness, og hvor hópur um sig togar í sína hagsmuni. Þingmenn Reykvíkinga eru mjög hallir undir að Reykjavík geti stækkað og teygt sig yfir í önnur kjördæmi og stækkað svo sitt kjördæmi á eftir. Menn sjá það strax að þessi leið, að heimila sameiningu sundurlausra sveitarfélaga, leiðir til togstreitu um skipan kjördæmanna rétt eins og áður fyrr að mikil togstreita var uppi um skipun goðorða þó að ég ætli ekki að halda því fram að menn fari að skipa málum eins og þá gerðist.

Ég held að sjónarmið manna um hvernig eigi að skipa kjördæmum, þ.e. hvernig á að skipa málum varðandi val fulltrúa inn á Alþingi, eigi að vera alveg sjálfstætt og alveg óbundið því hvernig menn skipa landinu í sveitarfélög. Ég legg áherslu á að aðalatriðið sé að menn skilji þetta að og hvað varðar það mál má auðvitað segja margt og setja fram sjónarmið í þeim efnum. Aðalatriðið hvað það varðar er að styrkleiki þeirra sé sem jafnastur. Það er afleitt að búa við kerfi þar sem styrkleiki kjördæma er mjög ójafn því að það er kerfi sem er vilhallt sterkasta kjördæminu. Það er að mínu viti engin tilviljun að byggðaþróun hefur verið afleit og hvað verst á síðustu 10 árum. Það er það tímabil sem við höfum búið við kerfi þar sem við styrktum öflugasta kjördæmið enn meira en áður var með kosningalagabreytingunni og stjórnarskrárbreytingunni 1983 sem tók gildi 1987. Það væri fróðlegt athugunarefni fyrir fræðimenn á þessu sviði, sem eiga að rannsaka þróunina hér í þjóðfélaginu að athuga samhengið þarna á milli, mismunandi afl kjördæma annars vegar og byggðaþróun hins vegar. Ég held því fram að þarna sé verulegt samband á milli og það hafi gefist landsbyggðinni afar illa að hafa eitt kjördæmi sem hefur svo mikið afl og sérstaklega þegar það er í ljósi þess að næstöflugasta kjördæmið er svo utan um það. En ekki meira um það enda er það óskylt mál þessu um það hvort þetta frv. um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar megi verða að lögum og það er mitt sjónarmið að það sé ekkert sem mæli því gegn að þessi tvö sveitarfélög verði sameinuð í eitt en ég tel hins vegar að það leiði ekki af því að þau þurfi að vera í sama kjördæmi.