Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:36:36 (1625)

1997-12-04 12:36:36# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg ótvírætt á þeirri skoðun að samhengi sé á milli mismunandi styrkleika kjördæma og byggðaþróunar. Við skulum líta aðeins á Reykjavíkurkjördæmi með sína 19 þingmenn og skoða hver styrkur þess er á Alþingi en það er Alþingi sem setur leikreglurnar í þjóðfélaginu og auðvitað hljóta leikreglurnar að ráða því hvernig þróunin verður. Við skulum ekki gleyma því t.d. svo ég nefni eitt dæmi sem kemur upp í hugann um leikreglur sem Alþingi setti varðandi einsetningu grunnskóla.

Alþingi ákvað að grunnskólar skyldu verða einsetnir og menn komust að því að það væri sumum sveitarfélögum svo erfitt að þau þyrftu sérstakan ríkisstuðning til að það mætti ná fram að ganga. Leikreglur voru samdar sem færðu þeim sveitarfélögum sérstakan fjárhagsstuðning frá ríkinu umfram almennar tekjur sem öll sveitarfélög hafa til að standa undir verkefninu. Og hvaða sveitarfélög voru það sem fengu þennan stuðning? Það voru stóru sveitarfélögin og fyrst og fremst Reykjavíkurborg. Er það ekki stefnumörkun? Hefur það ekki áhrif á það hvernig menn geta staðið að sínum málum þegar menn semja leikreglurnar vilhallar fyrir stærsta sveitarfélagið? Það er ekki fráleitt að það hafi áhrif á byggðaþróunina, herra forseti.

Við skulum líta aðeins á stöðu þingmanna í Reykjavíkurkjördæmi. Lítum á stærsta flokk landsins sem hefur flesta þingmenn í Reykjavík. Hvernig er staða þingmanna þess flokks í Reykjavík? Fyrsti þingmaðurinn er ráðherra, annar þingmaðurinn er ráðherra, þriðji þingmaðurinn er ráðherra og fjórði þingmaðurinn er biðráðherra og formaður þingflokks. Og hvað með þingmenn sama flokks, Sjálfstfl., úti á landsbyggðinni? Hvar eru þeir? Hvaða áhrif hafa þeir samanborið við þetta? Við getum farið yfir í Alþfl. sem dæmi eins og ríkisstjórnin sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sat í. Þar voru þrír ráðherrar frá Alþfl. og þeir voru allir úr Reykjavíkurkjördæmi. Þetta er auðvitað alveg skýr staðfesting á því að styrkleiki kjördæma hefur mikið að segja í þessum efnum.