Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:40:12 (1627)

1997-12-04 12:40:12# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er í grundvallaratriðum algerlega ósammála hv. þm. sem vill stíga skrefið lengra í þá átt að gera eitt kjördæmi miklu öflugra en önnur, sem vill gera miklu meira, vill að þingmenn Reykvíkinga verði fleiri og þingmenn landsbyggðarinnar færri en nú er. Ég set fram það sjónarmið að kjördæmin þurfi að vera þannig útbúin og markalínur þannig dregnar að þingmannafjöldi þeirra sé sem jafnastur í þeim öllum. Það er það sem skiptir máli, að þingmannahóparnir hafi svipað afl í þessari stofnun. Það er afleitt ef þeir hafa misjafnt afl þannig að einn hópurinn verði miklu öflugri en aðrir. Það leiðir til þess að það hallar á. Ég er því í grundvallaratriðum ósammála þingmanninum og ég er ekki einn um það.

Ég nefni sem dæmi stjórnskipanina í Bandaríkjunum. Þar er tvískipt vægi atkvæða. Annars vegar er fulltrúadeild þar sem fjöldi fulltrúa úr hverju fylki ræðst af íbúafjölda og hins vegar öldungadeild þar sem hvert fylki hefur tvo þingmenn óháð íbúafjölda. Ætlar hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir að halda því fram að ekki sé lýðræði í Bandaríkjunum af því að vægi atkvæða er ekki jafnt í öldungadeildinni? Ætlar hv. þm. að halda því fram að Bandaríkin séu ólýðræðislegt ríki? Ég á eftir að heyra hv. þm. koma hér upp og segja það. Það væri fróðleg yfirlýsing frá hv. þm. ef hún héldi því fram að ríki eins og Bandaríkin væri ekki lýðræðislegt heldur ólýðræðislegt, svo ég tali nú ekki um annað ríki, Bretland, þar sem fer ekki mikið fyrir vægi atkvæða í einmenningskjördæmakerfinu.