Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:45:08 (1634)

1997-12-04 13:45:08# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:45]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er hreyft afskaplega stóru og miklu máli sem í rauninni snýst um tvennt. Það snýst annars vegar um sjónavarpsútsendingar og aðgang að breiðbandinu eins og hér var reifað hjá hv. fyrirspyrjanda, þ.e. prinsippið um það hvort Póstur og sími skuli standa í slíkum rekstri og tel ég reyndar að hæstv. ráðherra hafi svarað því. En ég vil gera sérstaklega að umræðuefni hið svonefnda breiðband eða ljósleiðara. Það hefur komið fram að þessi upplýsingahraðbraut 21. aldar hafi verið grafin í jörðu og á hana skuli nú hleypa umferð. Það væri fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra hver er áætlaður kostnaður við að leggja upplýsingahraðbrautina inn á hvert heimili, annars vegar kostnaður Pósts og síma og hins vegar kostnaður heimila. Þar er vissulega um gífurlega stórar upphæðir að ræða og væri fróðlegt að heyra tölur um það frá hæstv. ráðherra. Jafnframt vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti verið sem haldið hefur verið fram, m.a. af lærðum mönnum á þessu sviði, að ákvörðunin um að grafa upplýsingahraðbrautina niður sé í rauninni úrelt tækni þar sem við blasi að innan fárra ára muni þéttriðið net í geimnum annast þessa dreifingu á hagkvæmari, einfaldari og skilvirkari hátt. Ef svo er þá er það mikið umhugsunarefni vegna þess að hér er um miklar upphæðir að ræða og væri fróðlegt að heyra svör hæstv. ráðherra við því.