Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:47:09 (1635)

1997-12-04 13:47:09# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), RA
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:47]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er létt verk að gagnrýna Póst og síma um þessar mundir og ég hef gert það óspart. Í kjölfar þeirrar einkavæðingar sem átt hefur sér stað hafa komið upp mjög margir ámælisverðir hlutir. En það ber líka að þakka það sem vel er gert og án þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr því sem fram kom hér hjá frummælanda áðan, þ.e. þeim álitamálum sem hann vakti máls á, þá finnst mér að lagning ljósleiðarans um landið og uppsetning breiðbandsins sé lofsvert framtak af hálfu Landsímans. Ég tel að ljósleiðarakerfið og breiðbandið sé að verða mjög mikilvægt þjóðvegakerfi og muni skapa miklu meiri gæði á þessu sviði og öruggari flutningsleiðir en kostur er á með þráðlausum boðskiptum þannig að þessu fylgja greinilega líka miklir kostir. En eins og ég segi: Einkavæðing Pósts og síma flækir þetta mál gríðarlega og skapar fjöldamörg vandamál og auðvitað væri eðlilegast að þetta þjóðvegakerfi væri sannanlega og örugglega á hendi ríkisins, á hendi almannavaldsins. Það er kjarni málsins. Hitt verður, held ég, aðalvandamálið að uppbyggingin gengur í raun og veru allt of hægt. Það mun koma í ljós eftir tvö, þrjú ár að enn er eftir að koma þessu þjóðvegakerfi til helmings landsmanna. Þá mun sem sagt helmingur landsmanna njóta ákveðinna forréttinda, að eiga afnot að þessu kerfi, en hinir eru út undan. Og það verður æpt á Landsímann og það verður æpt á okkur stjórnmálamenn að hraða lagningu þessa kerfis þannig að allir landsmenn sitji við sama borð. Þetta verður vandamálið.