Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:49:28 (1636)

1997-12-04 13:49:28# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:49]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Íslendingum munu bjóðast í náinni framtíð bestu fáanlegir kostir til gagnaflutninga. Upplýsingahraðbraut framtíðarinnar verður okkur opin um breiðbandsvæðingu sem nýtir sér ljósleiðara og tryggir meiri flutningsgetu, tryggir hærri gæði og meira öryggi en önnur flutningskerfi sem hægt er að bjóða upp á nú. Áætlanir þessar sem ég hef hér greint frá eru að talsverðu leyti nú þegar komnar í framkvæmd. Þær bera vott um mikla framsýni, framsýni sem ber að þakka en ekki að gagnrýna. Ég held að það sé athyglisvert, þegar menn velta fyrir sér möguleikunum um það hvort eigi að nota loftlínurnar eða kapalinn, að Microsoft-fyrirtækið undir stjórn Bill Gates hefur tröllatrú á því að breiðbandsflutningar um kapalkerfi séu breiðstræti framtíðarinnar. Og samkvæmt upplýsingum úr nýjasta hefti The Economist hefur Microsoft-fyrirtækið fjárfest fyrir 1 milljarð dollara í Comcast, fjórða stærsta kapalkerfi heimsins.

Ég held að það sé rétt að við fáum svar við því hvort hv. málshefjandi, Guðmundur Árni Stefánsson, er hér í raun og veru að leggjast gegn breiðbandsvæðingunni, hvort hann er að leggjast gegn því að þau áform sem hafin voru með því að leggja ljósleiðara um landið og verður lokið með því að tengja þennan ljósleiðara inn á hvert heimili og bjóða upp á raunverulega breiðbandsvæðingu inn á hvert einasta heimili, hvort hann er á mót þessu eða ekki. Ég hygg að ef þessi frammámaður Alþfl. vill koma í veg fyrir að t.d. hans eigið sveitarfélag verði tengt þá er tæknilega hægt að gera það, ef menn vilja virkilega standa gegn þessum framförum. En þarna er verið að bjóða öllum Íslendingum upp á ótrúlega góðan kost til að taka þátt í þessari breiðbandsvæðingu upplýsingahraðbrautarinnar.