Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:51:38 (1637)

1997-12-04 13:51:38# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra skilur ekki um hvað þetta mál snýst. Menn trúa því að það sé framtíðarlausn í breiðbandi, hliðrænu kerfi, eins og Póstur og sími er að fara í. En því miður er þetta hliðræna kerfi úrelt kerfi. Það er talið að fjarskipti muni í frekari mæli fara um þráðlaus kerfi í háloftunum um gervitungl og einnig hefur þróunin í gömlu símkerfunum orðið það ör að flutningsgeta þeirra hefur aukist til muna. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna Póstur og sími er að fara í þessa vafasömu fjárfestingu. Það er búið að byggja upp mjög gott stafrænt símkerfi hér undanfarin 14 ár og það hefur þróast út í samnetið sem flytur m.a. tölvugögn. Við Íslendingar höfum einnig byggt upp okkar eigið sjónvarpskerfi sem er um ljósleiðarann og örbylgjukerfi. Engu að síður skal breiðbandið í hvert hús í landinu, fyrir milljarða, á kostnað símnotenda. Þjónusta sem Póstur og sími er að bjóða um bandið er sú sama og Fjölvarp Íslenska útvarpsfélagsins er þegar að bjóða. Það er framboð sem virðist hafa fullnægt markaðnum. Hvað er það sem kallar á aðra leið til að fá þessar erlendu stöðvar inn á heimili landsmanna? Þær fást um þau kerfi sem við höfum nú þegar. Við höfum ljósleiðara milli allra símstöðva í Reykjavík og koparvír frá stöðvunum inn í húsin okkar og þessar leiðir verður hægt að nota til sömu flutninga og breiðbandið á að þjóna. Hér eru stjórnvöld sem sagt að koma upp tvöföldu kerfi. Er hér á ferðinni gæluverkefni einhverra í fyrirtækinu eða e.t.v. hæstv. ráðherra? Þetta er 20 ára gömul hliðræn tækni, hún er gamaldags og að verða úrelt. Hvers vegna er verið að byggja braut fyrir gamla Ford þegar vegakerfið fyrir hann er fyrir í landinu og þotu- og geimöld er gengin í garð? Ný tækni er handan við hornið í þessum málum. Við eigum að staldra við því tækninni fleygir mjög hratt fram.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Póstur og sími segist hafa tengt breiðbandið í 20 þúsund heimili á Íslandi fyrir hálfan milljarð króna. Erlendir sérfræðingar segja (Forseti hringir.) svona tengingu við 20 þúsund heimili kosta ekki minna en 3,5 milljarða. Ég legg til að Póstur og sími, fyrst þeir geta lagt þetta svona ódýrt, herra forseti, að þeir fari í að leggja

(Forseti (ÓE): Tíminn er búinn.)

breiðband erlendis og noti hagnaðinn (Forseti hringir.) til tækniframfara hér á landi.

(Forseti (ÓE): Forseti var nú búinn að biðja hv. þingmenn að gæta tímamarka þannig að allir kæmust að.)