Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:58:47 (1640)

1997-12-04 13:58:47# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það kemur æ betur í ljós að einkavæðing Pósts og síma var illa grunduð og vanhugsuð aðgerð. Einkum var vanhugsað að gera ekki strax í byrjun greinarmun á annars vegar þjónustuþætti stofnunarinnar og hins vegar grunnnetinu, umferðaræðum fjarskiptanna.

Ég var og er þeirrar skoðunar að grunnnetið eigi að vera í eigu ríkisins og að því marki sem samkeppni kemur til sögunnar á þessu sviði þá eigi ríkið að ráða grunnnetinu og tryggja, eftir atvikum, jafnan aðgang að því. Ég spurði hæstv. samgrh. á sínum tíma þegar breytingarnar á Pósti og síma voru hér til meðferðar, hvort grunnnetið yrði selt ef farið yrði út í einkavæðingu stofnunarinnar. Þá svaraði hæstv. ráðherra þannig að ekki stæði til að selja Póst og síma en ég tók það samt þannig að hæstv. ráðherra neitaði því ekki að ef til slíks kæmi þá yrði grunnnetið skilið að og yrði áfram í eigu ríkisins. Ég endurtek að gefnu tilefni spurningu mína til hæstv. ráðherra: Verður það tryggt í framtíðinni, verði farið út í einkavæðingu á Landsímanum, að grunnetið verði áfram í höndum ríkisins?

Varðandi fjárfestingu í breiðbandinu eða annarri uppbyggingu af því tagi þá þarf að sjálfsögðu að vanda vel til allra ákvarðana um slíkt, þar með talið og ekki síst tæknilega. Mínar efasemdir í þessu efni lúta ekki að því hvort rétt sé eða ekki að farið sé út í þessa uppbyggingu heldur eingöngu að hinu, hvort hér sé verið að velja tæknilega besta kostinn. Þar þarf auðvitað að skoða þróun mála, þar með talið bæði gervihnattasendingar og eins nýja tækni um að flytja slík boð um rafþræði. En hitt skulu menn varast, að gera þau mistök að leggjast gegn fjárfestingunni sem slíkri eða uppbyggingu af þessu tagi. Hvar stæðum við í dag ef Póstur og sími hefði á undanförnum árum ekki verið það öfluga fyrirtæki sem það hefur verið og getað byggt upp þau nútímalegu fjarskipti sem við þó njótum? (Forseti hringir.) Menn skulu varast að falla í þá gryfju að frysta allt fast í þessum efnum og færa okkur aftur á bak í tímanum.