Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:01:12 (1641)

1997-12-04 14:01:12# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:01]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Maður veltir því dálítið fyrir sér eftir að hv. þm. hafa átt orðræðu við hæstv. samgrh. hvaða tilgangi það þjóni. Hann virðist hvorki botna upp né niður í því sem verið er að tala um og virðist vera á allt annarri bylgjulengd og þyrfti nú Póstur og sími hf. að taka hæstv. ráðherra í tíma og tengja hann þannig að hægt sé að eiga orðastað við hann á vitrænan hátt.

Gripið er til þess gamalkunna ráðs að segja að þeir sem gagnrýna séu á móti upplýsingabyltingunni, þeir vilji ekki koma sjónvarpsefni út til landsmanna. Hvers konar firra og þvæla er þetta? Ég rakti hér áðan að Sigfús Björnsson, óháður fræðimaður á þessu sviði, hefði á það bent að með tilteknum ráðum mætti þétta fyrirliggjandi net þannig að það mætti stórauka notkun á því. Auðvitað viljum við upplýsingabyltinguna út um landið allt. En ég spyr að gefnu tilefni, af því að hæstv. ráðherra nefndi hér í umræðunni að það eigi að nota þennan ljósleiðara en ekki grafa hann í jörðu: Hver eru skilaboð frá hinum dreifðari byggðum einmitt varðandi þann þátt og þá gjaldskrárstefnu sem Póstur og sími og hæstv. samgrh. hafa fylgt í þeim efnum? Þeir geta ekki notað þennan ljósleiðara vegna þess að kílómetragjaldið er svo hátt. Þannig að öðruvísi mér áður brá og líttu í eigin barm, hæstv. ráðherra.

Ég segi það eitt, virðulegur forseti, að auðvitað á grunnnetið í lengri framtíð að vera í eigu þjóðarinnar allrar. Það kemur auðvitað ekki til álita að við seljum þann þátt og getum þar með falið vald í hendur einkaaðilum til að ráðstafa því með beinum aðgerðum og með gjaldskrárstefnu til hinna og þessara eftir efnum og ástæðum. Þá er tjáningarfrelsinu hætta búin. En hæstv. ráðherra svarar því ekki einu orði hér hvernig öll þessi uppbygging, þessi miðstýrða uppbygging, samræmist því sem hann sagði í fyrradag um að selja þetta fyrirtæki út og suður. Er því að undra, virðulegi forseti, þótt þessi nýja lína ráðherrans um að Póstur og sími hf. eigi að vera miðstýrt apparat og þjónusta allt landið sé í stíl við margnefndan Martein Mosdal, virðulegi forseti?