Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:37:04 (1651)

1997-12-04 14:37:04# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta tiltekna litla frv. en þetta er mjög merkilegt mál og því ástæða til að ég segi skoðun mína á því. Ég er efnislega alveg sammála síðasta ræðumanni um að þetta sé flókið viðfangsefni og alls ekki augljóst að sú niðurstaða sem hér er lögð til í 2. gr. frv. sé sú eina og rétta og sú sem best samræmist stjórnarskránni. Mér virðist að alveg eins megi færa rök fyrir hinu gagnstæða eins og komið hefur fram í ræðum annarra þingmanna, þ.e. að alls ekki er augljóst hvort telja beri Kjalarnes með Reykjavíkurkjördæmi eftir sameininguna eða með Reykjaneskjördæmi. Og ef það verður gert eins og einhver benti hér á að miða ætti við kjördæmaskipunina frá 1959, þá má spyrja hvort Reykjavíkurkjördæmi sé núna rétt skilgreint og er spurning hvort það samræmist stjórnarskránni.

Ég vil vegna orða hv. síðasta ræðumanns um sérstaka nefnd aftur minna á að þegar er starfandi nefnd um kjördæmaskipan og kosningalög þar sem fulltrúar þingflokkanna sitja og þar er þessi umræða í fullum gangi og var síðast fundur í fyrradag. Það er alveg ljóst að þetta er mun flóknara mál heldur en svo að það verði útkljáð hér. En ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að fleiri komi inn í svona umræðu, t.d. fulltrúar frá sveitarfélögum.

Mjög svipuð umræða á sér líka stað í allshn. vegna dómstólafrv. þar sem er verið að opna á ytri mörk héraðsdómstólanna samkvæmt því frv. sem nú liggur fyrir þannig að í þessu ljósi eru tvær spurningar í mínum huga, hæstv. félmrh. Í fyrsta lagi: Er nauðsynlegt að hafa 2. gr. frv. eins og hún er? Er ekki nóg að hafa 1. gr. frv.: ,,Sveitarfélögin Kjalarneshreppur í Kjósarsýslu og Reykjavíkurborg skulu sameinuð`` og síðan hljóði 2. gr. svo: Lög þessi öðlast þegar gildi? Ef það er í lagi, þá gefst tími til að ákvarða í þessari eða annarri nefnd hvernig þessum málum verður best fyrir komið því það þarf að skoða þessi mál í heild. Ég tel því að það yrði langfarsælasta lausnin að sleppa ákvæðinu í 2. gr. frv., taka ekki afstöðu til þess núna þannig að ekki þurfi að vera að koma upp einhverju bráðabirgðafyrirkomulagi sem hugsanlega yrði breytt síðar. Ef þetta er ekki mögulegt þá tel ég eðlilegt, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að sá háttur verði hafður á þangað til lokaskipan þessara mála verður útrædd að farið verði að því sem um var rætt við íbúana þegar þeir kusu að sameinast. Þessar spurningar hljóta að hafa komið upp í þeim umræðum og eðlilegt má telja að sú skipan verði lögfest til bráðabirgða a.m.k.

Ég vil að lokum ítreka að eitt er að fjalla efnislega um þetta frv., þ.e. það hvort sveitarfélag geti kosið í einu kjördæmi í sveitarstjórnarkosningum og öðru í alþingiskosningum og annað að ræða um sambandið á milli byggðastefnu eða stærðar og styrkleika kjördæma eins og hér var gert fyrr í umræðunni, hvað þá að ræða vægi atkvæða og hvað sé lýðræðislegt í þeim efnum. En vegna spurningar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem því miður er ekki í salnum núna --- en hann spurði mig fyrr í umræðunni hvort ég væri þeirrar skoðunar að lýðræðið í Bandaríkjunum væri ekki nógu gott vegna þess að þar eru annars vegar einmenningskjördæmi í fulltrúadeildinni og hins vegar hefur hvert fylki jafnmarga fulltrúa --- þá er ég þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að einmenningskjördæmi séu ekki besta lýðræðislega fyrirkomulagið. Ég held að það fyrirkomulag sem við höfum hér á hlutfallskosningum endurspegli betur vilja fólksins. En ef hér væru tvær deildir þá fyndist mér þetta ekki óhugsandi skipan, þ.e. að annars vegar endurspeglaðist fjöldi í gegnum einmenningskjördæmi og hins vegar í gegnum landsvæði eins og sýslur eða kjördæmi. Mér er ekki alveg ljóst hvaða eining er sambærilegust við fylki í Bandaríkjunum. Slíkt kerfi er ekki ólýðræðislegt að mínu mati. Hitt er annað mál að kerfið í Bandaríkjunum kallar fram aðeins 40--60% kosningaþátttöku. Það getur að mínu mati ekki verið hið fullkomna lýðræði. Það er mín skoðun og ég vil láta hana koma hér fram aftur, að misvægi atkvæða sé of mikið hér á landi og að það beri að leiðrétta. En það er hins vegar algerlega ótengt því máli sem hér er til umræðu.