Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:43:39 (1652)

1997-12-04 14:43:39# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:43]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram um 2. gr. þessa frv. hefur verið um margt fróðleg og athyglisverð og lýtur að ýmsum áleitnum spurningum. Ekki er ágreiningur um, ef ég skil rétt, að eðlilegt sé að Alþingi staðfesti þá sameiningu sveitarfélaga sem ákveðin var í atkvæðagreiðslu í báðum sveitarfélögunum þannig að sú ákvörðun nái fram að ganga. Mönnum sýnist hins vegar sitt hverjum um það hvernig eigi að skipa sveitarfélögum, sem þannig hafa sameinast, í kjördæmi þar sem svo stendur á að þau voru og hafa verið hvort í sínu kjördæminu.

Frá mínum bæjardyrum séð er þetta þó ekki áleitin spurning. Mér sýnist alveg augljóst að kjördæmamörkum verður ekki breytt nema með breytingu á stjórnarskrá. Kjördæmamörkin eru býsna fastákveðin í stjórnarskránni þar sem talin eru upp sýslufélög og kaupstaðir sem mynda hvert kjördæmi. Sýslurnar samanstanda af hreppum og þegar horft er til þess til hvaða landsvæðis sýsla tekur, þá verða menn að horfa til þess hvernig það mál leit út þegar stjórnarskrárákvæðið var sett. Það er að mínu mati eðlileg og rökrétt túlkun á stjórnarskránni og verður ekki hnikað til nema með beinni breytingu á stjórnarskrá.

[14:45]

Við gætum stillt upp mörgum fróðlegum dæmum. Ef til að mynda þessi tvö sveitarfélög sem við erum hér að tala um hefðu tekið ákvörðun um það að sveitarfélagið hið sameinaða skyldi framvegis heita Kjalarneshreppur, hvaða aðstöðu hefðu menn þá verið í? Telja menn að þá hefði Reykjaneskjördæmi stækkað svo að stærsta kjördæmi landsins væri þá komið inn í Reykjaneskjördæmi? Ég hygg að það væri með öllu óeðlilegt. Ef Reykjavík kysi að sameinast sveitarfélagi norður í landi eða austur á landi, telja menn að með einfaldri atkvæðagreiðslu í þessum tveimur sveitarfélögum væri unnt að raska stjórnarskrárbundinni kjördæmaskipun og sveitarfélag á Norðurlandi eða Austurlandi sem ákvæði að sameinast Reykjavík mundi segja sig úr viðkomandi kjördæmi? Það held ég að sé alveg augljóst að gæti ekki gerst. Þess vegna er að mínu mati sú skipan sem hér er gert ráð fyrir fullkomlega eðlileg og í samræmi við stjórnarskrá landsins og óþarfi að setja á langar deilur um þetta efni. Hitt kann svo vel að vera að menn vilji breyta stjórnarskránni og koma við meiri sveigjanleika í stjórnarskránni varðandi það hvernig kjördæmin eru fastákveðin. En það er allt annar handleggur. Í þessu efni verða menn að ganga út frá því hvernig stjórnarskráin er í dag og hvað menn voru að ákveða hér á hinu háa Alþingi þegar þau stjórnarskrárákvæði voru sett. Atkvæðagreiðslur í einstökum sveitarfélögum geta ekki að mínu mati breytt þeirri niðurstöðu.