Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:51:11 (1655)

1997-12-04 14:51:11# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:51]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti út af fyrir sig alveg fallist á þessa skoðun að kjördæmamörkum verði ekki breytt nema með stjórnarskrárbreytingu. En það þvælist dálítið fyrir mér hversu oft þetta hefur gerst, líka eftir stjórnarskrárbreytinguna 1934. Það er að vísu, ef ég man rétt, ekkert dæmi um að flytja heilt sveitarfélag yfir kjördæmamörk yfir í annað. Ég man ekki hvernig það var en ég held að það hafi verið hluti úr Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði sem var færður til Akureyrar. Það er kannski stærsta skrefið sem hefur verið stigið, svona fyrir utan þetta sem við erum að tala um hér í dag. En þetta hefur sem sagt gerst ítrekað og enginn hefur sagt neitt. Það má kannski segja að batnandi mönnum sé best að lifa ef menn eru búnir að átta sig á því núna að það megi ekki gera þetta svona. Þá innsiglum við það væntanlega þegar við göngum frá þessu frv.