Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 15:11:12 (1659)

1997-12-04 15:11:12# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[15:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að kveða upp neinn dóm um það hvort málið er einfalt eða flókið. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta tiltölulega einfalt. Ég tel að ekki sé hægt að breyta kjördæmaskipun með atkvæðagreiðslu í sveitarfélögum, ekki heldur með því að breyta um nafn á sveitarfélögum. Hvað ef Reykvíkingar tækju ákvörðun um það að breyta um nafn á Reykjavík? Það mundi ekki breyta því að Reykjavík eins og hún er skilgreind nú yrði áfram sérstakt kjördæmi í samræmi við ákvörðun stjórnarskrárinnar. Íbúar í Reykjavík gætu ekki gert þar á breytingar með því einu að breyta nafni sveitarfélagsins. Þess vegna verða menn að horfa á það sem stjórnarskrárgjafinn var að ákveða þegar stjórnarskráin var sett. Annað getur ekki verið viðmiðun við kjördæmamörk. Að því leyti sýnist mér málið vera einfalt.