Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 15:12:29 (1660)

1997-12-04 15:12:29# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[15:12]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég er nokkuð hissa á því hvernig þessi umræða hefur þróast og hvað menn hafa getað gert sér úr þessari umræðu. Þegar ég mælti fyrir þessu máli í morgun sýndist mér að hér væri um sáraeinfalt mál að ræða sem allir væru kátir með. Ég átti von á því að þetta frv. fengi góðar viðtökur og 1. umr. yrði skjótt afgreidd. En reynslan hefur orðið önnur og ég er svo sem ekkert að telja eftir mér að hlusta á umræður um málið.

Það hafa einkum verið þingmenn Reykjaness sem hafa haft athugasemdir fram að færa og þá undir forustu 1. þm. kjördæmisins, hv. þm. Ólafs G. Einarssonar sem er náttúrlega sem kóngur í ríki sínu kannski eitthvað smávegis sár yfir því að ríkið sé skert (Gripið fram í: Nei, nei.) um einn hrepp. (Gripið fram í.) Ég vil nú samt hugga hv. þm. Reykn. Ég held að þeir þurfi ekki að óttast fólksskort í kjördæminu á næstunni þannig að þó að þarna séu 400 manns rúmlega að sameinast sveitarfélagi í öðru kjördæmi, þá er ekki ástæða fyrir þá að kvíða neinu með fólksfjöldaþróun í Reykjanesi. (SvG: Er ekki þingmaðurinn að óska eftir að ...?) Ég fyrir mitt leyti reiði mig á álit ríkislögmanns og ég er nákvæmlega sömu skoðunar og hæstv. dómsmrh. um það að sameiningarkosningar í sveitarfélagi færa það ekki til á milli kjördæma einar og sér. Ég er satt að segja hissa hvað menn hafa látið sig hafa það að draga í efa eða gera lítið úr því sem þeir kalla álit Gunnlaugs Claessens.

[15:15]

Nú veit ég ekki betur en að Gunnlaugur Claessen sé einn af okkar fremstu lögfræðingum og honum hefur verið falinn mikill trúnaður. Hann stendur ekki einn að þessu áliti. Það er undirritað af Sigrúnu Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanni og Guðrúnu Margréti Árnadóttur hæstaréttarlögmanni ásamt með Gunnlaugi Claessen. Ég fyrir mitt leyti fyrirverð mig ekkert fyrir að reiða mig á þessa álitsgerð og það er svo fjarri lagi að ég óttist að við séum að brjóta stjórnarskrána með þessu máli. Ég vildi nú síst af öllu verða til þess. Ég tel að menn hafi stundum farið of frjálslega með túlkun stjórnarskrárinnar við lagasetningu á Alþingi og ég minnist dæma þar sem ég hef talið að hún hafi verið sett í meiri hættu en í þessu tilfelli.

Það er rétt að það komi fram að þessi álitsgerð er ekki unnin að minni beiðni heldur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var félmrh. og hún er dagsett 28. september 1993 og lá fyrir í ráðuneytinu þegar ég kom þangað. Ég tel að það sé skynsamlegt að sameina þessi sveitarfélög og ég tel að það sé ekki heppilegt að þingmenn séu að að reyna að koma í veg fyrir það. Ef ég veit rétt þá bar málið þannig að að Kjalarneshreppur sem átti í verulegum fjárhagserfiðleikum leitaði eftir því við Reykjavíkurborg að taka upp viðræður um sameiningu við borgina. Því var tekið jákvætt og eftir að menn höfðu ræðst við var ákveðið að ganga til atkvæða um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga en ekki um það að breyta kjördæmamörkum. Það voru ekki greidd atkvæði um það í sumar þegar atkvæðagreiðslan fór fram.

Það kom fram hjá hv. 1. þm. Reykn., Ólafi G. Einarssyni, að hann dró í efa að skynsamlegt væri eða heppilegt að langstærsta sveitarfélaginu væru sköpuð útþensluskilyrði. Nú veit ég ekki hvort það er hugmynd þeirra hv. þm. Reykn. að hafa höfuðborgina í einhverri herkví. Ég vona að svo sé ekki og Reykjavík eigi út af fyrir sig að hafa vaxtarmöguleika eins og önnur sveitarfélög í landinu enda hefur Reykjavík stækkað töluvert á undanförnum árum. En það er mjög athyglisvert að í höfuðborginni býr núna mjög svipað hlutfall þjóðarinnar og bjó þar 1950. Þrátt fyrir mikinn vöxt borgarinnar þá er ekkert hærra hlutfall Íslendinga búsett hér. Á árunum upp úr stríði náðu Reykvíkingar því að verða um 40% þjóðarinnar og þeir eru það enn. Það hefur sveiflast á milli 38% og 40% þjóðarinnar sem hafa búið í höfuðborginni þannig að Reykjavík hefur út af fyrir sig ekkert vaxið neitt óeðlilega á landsvísu. Það er hins vegar miklu meiri fjölgun í nágrannasveitarfélögunum sem mörg hver voru mjög strjálbyggð eða varla til fyrir 50 árum.

Nú er spurning um hve heppilegt er að hafa sveitarfélög stór. Ég lít svo á að hér sé óheppileg byggðaþróun og hún er orðin mjög fágæt í veröldinni. Hvergi í kringum okkur er jafnstór hluti þjóðar búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Í Evrópu er það áreiðanlega hvergi nema í Lúxemborg sem að 2/3 hlutar þjóðarinnar búi á svo litlum hluta landsins. Ég held að þetta sé óheppileg þróun, en það er ekki umræðuefni þessa fundar.

Spurningin er hver sé eðlileg stærð sveitarfélaga. Ég gæti vel séð Reykjavík fyrir mér enn þá stærri en hún er. Mér fyndist ekki nein goðgá og reyndar mjög eðlilegt að Seltjarnarnes og Mosfellsbær sameinuðust þessu sveitarfélagi. Ég sæi líka fyrir mér, og ég held að það væri mjög heppilegt, að sameina sveitarfélögin hér suður undan í annað sveitarfélag, mjög öflugt sveitarfélag. Þar á ég við Kópavog, Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ég hygg að þar gæti komið upp mjög öflugt sveitarfélag sem gæti skapað íbúum sínum góð skilyrði.

Varðandi flutning verkefna til sveitarfélaganna þá er mín reynsla sú að mörg sveitarfélög séu miklu metnaðarfyllri en Reykjavíkurborg að taka við verkefnum frá ríkinu. Ég mæli þar af nokkurri reynslu því ég er mjög áhugasamur um að flytja verkefni til sveitarfélaga ef þau á annað borð vilja taka við þeim. Reynslan er sú að mörg sveitarfélög eru miklu fúsari að taka við vandasömum og erfiðum verkefnum frá ríkinu en Reykjavík. Sumir embættismenn borgarinnar hafa ekki verulega löngun til að bæta verkefnum við borgarkerfið. Og það er kannski til eðlileg skýring. Starfsemin fer hér fram. Það er annað viðhorf úti í dreifbýlinu. Þessi störf eru unnin hér í Reykjavík og það er svo sem ekki verið að flytja þau neitt til. En ég lít svo á að það sé mikill akkur fyrir sveitarfélögin úti á landi að fá unnið í heimbyggð sem mest af þeim verkefnum sem vinna þarf í þágu íbúa sveitarfélagsins. Ég nefni t.d. flutning á málefnum fatlaðra sem var hér reyndar lítillega til umræðu í morgun í sambandi við annað mál. Á Norðurlandi eystra hafa sveitarfélögin tekið við þessu verkefni og þeim ferst það mjög vel úr hendi, á Hornafirði líka og í Vestmannaeyjum. Og alls staðar vekur það verulega ánægju og fjármunir nýtast betur.

Ég lét þess getið í framsögu minni að ég teldi að það væri ekki nema tímabundið ástand, ég held ég hafi notað orðið bráðabirgðalausn, að hafa Kjalnesingana í Reykjaneskjördæmi og ég byggi það á því að í stjórnarsáttmálanum er ákvæði um endurskoðun kosningalaga og þá væntanlega verður kjördæmaskipun líka tekin til endurskoðunar. Nú er búið að uppfylla hér um bil öll ákvæði stjórnarsáttmálans nema þetta og ég sé engar líkur á öðru en að því verði líka lokið á þessu kjörtímabili. Ég skal ekki spá um hver útkoman verður. En mér þykir mjög ósennilegt annað en að áður en gengið verður til næstu kosninga verði búið að gera breytingar á kosningalögunum. Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu og þá er það kjörið viðfangsefni að taka afstöðu til þess hvort Kjalarnes yrði sameinað Reykjavíkurkjördæmi.

Menn hafa verið hér með dæmi um sameiningu sveitarfélaga, hluta úr Glæsibæjarhreppi sem var sameinaður Akureyri fyrir margt löngu og landspildur sem hafa verið lagðar undir Reykjavík og hafa velt sér upp úr þeim dæmum. En þessi dæmi henta illa. Það er ekki um sambærileg tilvik að ræða. Hér eru tvö sjálfstæð og meira að segja aðskilin sveitarfélög að sameinast og þau eru ekki einu sinni samliggjandi. Mér finnst að ekki sé hægt að jafna þessu við það þegar óbyggðar eyjar hér úti fyrir ströndinni voru færðar milli sveitarfélaga ellegar þá einhver hús á Eiðisgranda sem ég veit ekki hvað voru mörg.

Ég held að þetta sé skynsamleg sameining sem hér er lögð til og ég held að í mjög mörgum tilfellum sé sameining sveitarfélaga æskileg og heppileg. Ég er alfarið á móti því að lögþvinga sameiningu. Sveitarfélögum kemur til með að fækka um marga tugi á þessu kjörtímabili og ég tel að vinnubrögð mín hafi sannað sig í því efni. Ég vil ekki vera að setja neina stífa ramma. Menn hafa verið hér með hártoganir um að Árneshreppur og Reykjavík mundu sameinast. Ég held að það sé mjög lítil hætta á þeirri sameiningu, þ.e. að sameining við Árneshrepp yrði samþykkt í Reykjavík. Það gæti skeð að hún yrði samþykkt í Árneshreppi en Reykjavíkurborg yrði þá að fara að annast alla þjónustu í Árneshreppi eins og hér í borginni og ég á eftir að sjá það að Reykjavík tæki það að sér. Mér finnst meginatriðið að sameinuð sveitarfélög geti myndað félagslega heild og Reykjavík og Kjalarnes geta það.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði hvort 2. gr. frv. væri nauðsynleg. Ég var í nokkrum vafa um það. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég svara bara þessari spurningu. Ég var í vafa um það. Mér fannst það vera svo augljóst að þessi sameining breytti ekki kjördæmamörkum. En eftir að hafa haft samráð við forsrn. þá orðuðum við þessa grein eins og hún er í fr.

Herra forseti. Ég tel að það sé engin ástæða til þess að láta sérnefnd taka við þessu máli --- hv. félmn. er fullkomlega fær um að fjalla um það --- og það sé ástæðulaust að fresta þessu máli. Ég vænti þess að það fái framgang í þinginu.