Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 15:28:59 (1661)

1997-12-04 15:28:59# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[15:28]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að hefja neinar deilur við hæstv. ráðherra. Ég hóf þessa umræðu að ég held málefnalega og mér finnst hún hafa verið málefnaleg í alla staði. Allir sem hafa kvatt sér hér hljóðs hafa talað málefnalega um málið. En ég vil ekki láta mistúlka orð mín og ekki okkar Reyknesinga. Það vill nú svo til að við erum ekkert að horfa á eftir neinum kjósendum til Reykjavíkur með þessari breytingu. Hæstv. ráðherra ætlar einmitt að sjá til þess með einmitt 2. gr. frv. Ég vænti þess að borgaryfirvöld í Reykjavík sjái til þess að það komi mikill fjöldi íbúa til viðbótar í Reykjaneskjördæmi eftir að Reykjavíkurborg hefur fengið allt þetta land til að skipuleggja og þó hún eigi kannski ekki nema lítinn hluta af því núna. Það er því engin afbrýðisemi af okkar hálfu í sambandi við þetta mál, alls ekki. En við höfum haft ákveðnar efasemdir um vissa þætti þarna. Það má ekki túlka orð mín svo að ég vilji hafa höfuðborgina í einhverri herkví. Hún er umlukt öðrum sveitarfélögum og hafinu en hefur ævinlega fengið stækkunarmöguleika nánast eftir því sem hún hefur óskað. Ég taldi hins vegar að það væri íhugunarefni hvort það ætti að skapa langstærsta sveitarfélagi landsins skilyrði til þess að vaxa enn frekar og öðrum langtum meira yfir höfuð en nokkru sinni fyrr. Það taldi ég vafasamt.

Það hefur komið fram að ráðherrann lítur á þetta sem bráðabirgðaráðstöfun og það þótti mér vera nýtt í málinu. Hann reiknar sem sagt með að því verði breytt sem hann er að leggja til að nú verði lögfest. Svo hafa menn verið að velta sér upp úr dæmum. Það er ósanngjarnt að taka þannig til orða. Við höfum nefnt dæmi þar sem ekki hefur verið talað um stjórnarskrárbrot og spurningin er hvort menn megi bara brjóta stjórnarskrána pínulítið en ekki mikið.