Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 15:59:31 (1667)

1997-12-04 15:59:31# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[15:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í sambandi við húsaleigubótakerfið sem verið hefur við lýði í tvö eða þrjú ár að framkvæmdin hafi gengið mjög vel. Húsaleigubætur hafi sérstaklega gagnast láglaunahópum, lágtekjuhópum, og framkvæmdin hafi verið að mestu hnökralaus.

[16:00]

Hv. þm. nefndi það hér og gagnrýndi mjög að skilið hefði þannig verið við ákvæðið í síðasta frv. sem varð að lögum að það hefði verið á valdi sveitarfélaganna sjálfra hvort þau tækju upp húsaleigubætur eða ekki. Nú er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sá þingmaður sem hæst talar um að það eigi hér í þingsölum að fara að vilja Sambands ísl. sveitarfélaga og gæti ég dregið upp margar ræður, herra forseti, sem sýna fram á það að hv. þm. talar alltaf hér \mbox{fyrir} hönd sveitarfélaganna: ,,Farið að vilja sveitarfélaganna.`` Þess vegna spyr ég hv. þm. einnar spurningar: Hefði hv. þm. verið í mínum sporum sem félmrh. þegar lögin tóku gildi, hvort hefði þingmaðurinn gengið gegn sveitarfélögunum og Sambandi ísl. sveitarfélaga og knúið málið þá í gegn í fullri andstöðu við sveitarfélögin sem ég efast um að honum hefði tekist eða látið málið liggja? Ég ákvað þann kost að lögfesta húsaleigubætur þar sem meirihlutavilji var fyrir því á Alþingi að ná fram áfanga í þessu máli, að lögfesta þessar réttarbætur fyrir lágtekjufólk, og það yrði þá tekið á því í næsta áfanga að þetta gengi yfir öll sveitarfélögin. En ég spyr hv. þm.: Hvað hefði hann gert í mínum sporum? Hefði hann látið málið liggja eða fallist á þann áfanga sem þá náðist?