Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:01:36 (1668)

1997-12-04 16:01:36# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega svo fráleitur málflutningur hjá hv. þm. að ég óska eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá og þarf svolítið lengri tíma en gefst í andsvari til að fara nógu rækilega yfir þetta mál.

Málið bar að sjálfsögðu ekki svona að eins og hæstv. fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, er að reyna að setja hér upp, að það hafi verið frá byrjun sérstök krafa sveitarfélaganna að svona yrði frá þessu máli gengið. Þannig kann ég ekki þá sögu. Það var þvert á móti algerlega öfugt. Það var þegar sú niðurstaða var fengin að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson var búinn að pína hæstv. þáv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur til þess að kyngja því að þetta verkefni yrði sett yfir á sveitarfélögin að verulegum hluta sem sveitarfélögin sögðu: ,,Já, en þá viljum við líka ráða því sjálf hvernig þetta verður gert.`` Og það var ekkert óeðlileg afstaða þeirra þegar svo var komið. En mér er ekki kunnugt um að sveitarfélögin í landinu hafi t.d. hafnað því fyrirkomulagi, ef það hefði verið í boði, að ríkið greiddi alfarið húsaleigubætur og væri með það verkefni. Ég kannast ekki við þær samþykktir.

Svo er það rangt hjá hv. þm. að ég standi hér ævinlega í ræðustól og tali sem málsvari Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er kolrangt. Ég tala mjög oft sem málsvari sveitarfélaganna á almennum forsendum. En það er ekki sama og að mæla öllu bót sem frá sambandi þeirra kemur og þaðan af síður frá stjórnarformanni eða framkvæmdastjóra þó það sé ágætur hestamaður. Ég verð að segja það alveg eins og er að þó að þessir ágætu menn og Samband sveitarfélaganna og sveitarfélögin hafi oft rétt fyrir sér þá tek ég hiklaust afstöðu á móti þeim og með almennum réttindum borgaranna ef þetta rekst á, hiklaust. Og það er það sem ég hef gagnrýnt hér að menn seldu almenn réttindi borgaranna í landinu fyrir þennan graut, þessa málamiðlun sem þarna varð á sínum tíma, með því að gera réttindin valkvæð og háð geðþóttaákvörðun hverrar og einnar sveitarstjórnar. Það er alveg borin von að hv. þm. geti komið hér og haldið uppi nokkurri málsvörn fyrir þá niðurstöðu. Það er ekki hægt.