Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:03:53 (1669)

1997-12-04 16:03:53# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:03]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér datt auðvitað í hug að hv. þm. ætti engin svör við þeirri beinu spurningu sem ég lagði fyrir hann heldur yrði hér með alls konar útúrsnúninga og fullyrðingar sem engan veginn standast. Ég er alveg viss um að hv. þm. hefði í sporum mínum sem ráðherra tekið þann kostinn að lögfesta frv. á sínum tíma frekar en láta það liggja, enda hefur það sýnt sig að húsaleigubætur hafi náð yfir 80% af leigumarkaðnum.

Síðan er það alveg augljóst, herra forseti, að hv. þm. var nú aldrei allan tímann innan fjögurra veggja ráðuneytisins meðan ég var þar og gat því ekki hlustað á samtöl mín og hæstv. fjmrh. eða fulltrúa sveitarfélaganna. Það sem okkur greindi fyrst og fremst á, okkur hæstv. fjmrh., var skattlagning húsaleigubótanna en ekki fyrirkomulagið. Það var það fyrst og fremst og ég gæti dregið upp gögn máli mínu til stuðnings ef ég hefði tíma í það, að það voru sveitarfélögin og Samband ísl. sveitarfélaga sem lögðust gegn því að þetta ákvæði ætti að gilda um öll sveitarfélögin. Það var áskilið af þeirra hálfu að ef þau ættu að styðja málið í gegnum þingið, þá yrði þetta að vera valkvætt ákvæði fyrir sveitarfélögin þannig að sveitarfélögin hefðu sjálfdæmi um það hvort þau tækju upp húsaleigubætur eða ekki. Það er staðreynd þessa máls, herra forseti, og ítreka ég það að ég þekki nú hv. þm. það vel að hefði hann staðið í mínum sporum á þessum tíma, þá hefði hann ekki látið svo gott mál liggja, þó að það væri á því þessi stóri galli sem ég alveg viðurkenni, frekar en ná því ekki í gegn vegna þess og ég minni á það og það hefur komið fram í skýrslu sem Rannveig Guðmundsdóttir lét gera þegar hún var ráðherra að mig minnir, að þessi leið, húsaleigubætur, er besta leiðin um langan tíma sem farin hefur verið til þess að bæta kjör tekjulágra hópa í þjóðfélaginu.