Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:11:04 (1672)

1997-12-04 16:11:04# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljóst að málið hefur þróast áfram frá því að það samkomulag við framkvæmdastjóra og stjórnarformann sem vitnað er til í fylgiskjali með frv. var gert.

Í öðru lagi þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að staðfesta það hér skýrt og afdráttarlaust að hann er sammála mér um að frágangur málsins á sínum tíma var klúður. Ég tek síðan undir með hæstv. ráðherra og það gerði ég í mínu máli, að það klúður er að sjálfsögðu ekki eingöngu hv. þm. og hæstv. fyrrv. ráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur að kenna. Mér er alveg ljós og nefndi reyndar sérstaklega hlut hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar og yfirfélagsmálaráðherra í því máli. Það er alveg ljóst að í þessu máli eins og mörgum öðrum var þar við ramman reip að draga að eiga við nískuna og þvergirðingsháttinn í hæstv. fjmrh. sem er ævinlega þversum, eins og þverplanki þegar einhver félagsleg réttindamál af þessu tagi eru á dagskrá. Það er alveg ljóst að þar var þungur róður. Það breytir hins vegar ekki hinu að frágangurinn á málinu var svona og hann var ekki bara slæmur vegna þess að þetta væri tæknilega ekki vel úr garði gert og ábótavant að ýmsu leyti heldur var hann --- ja, ég verð að segja það, herra forseti, ég bara meina það í fullri alvöru --- hann var og er stjórnsýslulegt hneyksli. Hann var ekkert annað. Það er alveg morgunljóst í mínum huga að þetta mundi ekki standast ef á þetta yrði látið reyna, að mismuna borgurunum svona.

Frv. er seint fram komið vegna þess að það hafi þurft að ná samkomulagi við sveitarfélögin. Já, já, það eru út af fyrir sig skiljanleg rök en ekki vel frambærileg vegna þess að mál af þessu tagi verður þá bara að leggja vinnu í og reyna að leysa. Og ef niðurstaðan verður svo sú að lokum að aðferðin verður að endurgreiða skatttekjurnar af húsaleigubótunum, þá jafngildir það því --- er það ekki eða það á að gera það í reynd --- að ekki væri um skattlagningu að ræða eða alla vega ekki íþyngingu sem því nemur, að skattur væri tekinn af þessu og þá er það niðurstaðan.

Sveitarfélög hafa að sjálfsögðu skyldum að gegna í húsnæðismálum, það er rétt. En það er ekki þar með sagt að þau eigi að annast stuðninginn hvað þetta húsnæði snertir en ríkið hvað eignarhúsnæðið snertir. Ég er ekki viss um að það sé góð skipting.